Frábær ferð á Vatnsnesið

Á fimmtudaginn fór ég í vettvangsferð með kúrs sem ég er í sem heitir Íslensk hlunnindi. Ferðin var þvílík snilld í rigningu og súld nærri allan tímann. Tilgangurinn með ferðinni var að skoða hlunnindi eins og æðarvarp, rekavið og sel á Vatnsnesi og víðar. Lagt var af stað frá Hvanneyri á fimmtudagsmorgni og fyrsta stopp var í Selasetrinu á Hvammstanga. Þar var sænsk stúlka sem tók á móti okkur og fræddi okkur um selarannsóknir og Selasetrið. Við skuðuðum sýninguna sem var í fallegu og gömlu húsi. Þaðan var haldið út á Vatnsnes og fyrsta stopp var á Svalbarð en þar var enginn selur bara hollenskir túristar. Þaðan var haldið að Illugastöðum þar sem Natan Ketilsson var brenndur inni 1827 og Agnes og Friðrik voru svo hálshoggin fyrir það verk og var það bróðir hans Natans, Guðmundur sem gerði það. Að Illugastöðum má enn sjá smiðju Natans en þar er mikið æðarvarp og þar sáum við fyrstu selina. Þeir komu mjög nálægt okkur og sýndu listir sýnar með nokkrum góðum "Free Willy" töktum... Ótrúlega magnað að sjá þá.. Ég var alveg hugfangin af umhverfinu en þarna voru fléttur og skófir upp um alla kletta..

Þaðan héldum við að Ósum en það er ferðaþjónustu bær við Húnaflóa sem hefur æðarvarp, selalátur og 80 þús lítra mjólkurkvóta. Gistiaðstaðan var mjög snyrtileg og smekkleg og það fór ljómandi vel um okkur þarna. Við elduðum hakk og spakk um kvöldið og svo var spilað eða horft á sjónvarið en undir lok kvöldins þá hélt Árni Snæbjörnsson, kennarinn okkar og ráðunautur í hlunnindum, uppi skemmtiatriðum með sögum og vísum.. Þvílík snilld.. Þessi maður er svo fróður og minnugur um allt sem viðkemur hlunnindum, sögu og landafræði..  Þetta var ljúft kvöld.

Morguninn eftir þá var farið með Knúti ferðaþjónustu- og mjólkurbónda niður að Sigríðarstaðaós til að skoða selina og á leiðinnisfræddi hann okkur um ýmislegt varðandi selinn og búskapinn hjá sér. Við sáum hátt í 300 seli sem láu í makindum á sandeyrunum í ósunum. Það var alveg magnað. Móðir Knúts sér mikið um æðarvarpið og hún var búin að lýsa fyrir okkur hvernig hún startaði því um miðja síðustu öld.

Þá var lagt af stað heimleiðis með viðkomu á bænum Kolbeinsey til að sjá rekavið og fara í fjárhúsin, en þar hittum við hann Skolla sem var skemmtilegur minkahundur.

Það æxlaðist svo að ég þurfti að keyra smárútuna í bæinn til að skila henni og það gekk áfallalaust.  Það er óhætt að segja að þessi ferð hafi tekist mjög vel og var fróðleg og skemmtileg og félagsskapurinn frábær.

Þegar í bæinn kom þá sótti Valdi mig en hann var að klippa með börnunum (nema Lindu) í garðinum hjá pabba sínum. Þar fengum við læri í matinn sem var einstaklega ljúffengt. Ég var alveg örmagna þegar við komum heim um kvöldið og ég hreinlega krassaði beint ofan í rúm.

Valdi hefur verið að klippa mikið þessa vikuna og ég hef verið bissí í vistfræðivinnu... Þannig að það er bara allt við það sama.. Á morgun förum við að sjá Lindu í Sólheimaleikhúsinu.

Ath: Nýtt stórt albúm sem heitir Hlunnindaferð.

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Trjáklippingar og Búnaðarskólinn í Ólafsdal

Enn eru það tölvuvandræði sem koma í vef fyrir tíðar færslur frá þessu heimili... Veit samt ekki hvort þetta er tölvan eða moggabloggið sem er að gera mig gráhærða...

Annars er tölvan mín komin úr viðgerð og er í endurhæfingu hjá Guðjóni tölvufræðingi svo þetta horfir allt til betri vegar.

Það er búið að vera nóg að gera hjá okkur að venju. Valdi hefur verið alveg á fullu að klippa garða með Gísla bæði niðri á Skaga og líka hér á Hvanneyri. Hann hefur líka farið hér eitthvað upp í sveitir að klippa. Svona útivinna bætir, hressir og kætir kallinn sem er að missa geðheilsuna á að sitja inni og skrifa ritgerð...

Ég hef verið bissí í vistfræðinni en nú fer að koma að lokasprettinum hjá nemendunum þar.

Ég fór líka um daginn upp í Dalasýslu til Hildar en við fórum saman á málþing um Búnaðarskólann í Ólafsdal sem var stofnaður árið 1880 minnir mig... Húsið liggur undir skemmdum og nú á að fara að gera eitthvað við það og hafa einhverja menningarstarfsemi þarna. Við byrjuðum á að fara inn í húsið um morguninn fyrir málþingið en Hildur og fleiri listamenn verða með myndlistarsýningu þarna í ágúst.. Það var frábært að sjá inn í þetta gamla hús.. Svo lúið.. Þarna var skóli í nærri 30 ár og hefur húsið verið nýtt til ýmissa hluta síðan.. (myndir koma seinna).  

Kosningarnar lögðust vel í mig. Það gekk illa að sannfæra Valda hvað hann átti að kjósa en það tókst á lokasprettinum.. Ég var afskaplega spennt yfir þessum kosningum en ég hef ekki horft á kosningasjónvarp úr sófanum heima í hátt í 20 ár... Ég hef annað hvort verið erlendis eða unnið við þetta hjá Rúv eða Stöð 2... Við Valdi grilluðum og höfðum það mjög kósí og drukkum fínt eðalvín sem Valdi hafði keypt í fríhöfninni.. Namm það var ljúffengt...   Eftir fyrstu tölur þá taldi ég ljóst að hann Ásmundur vinur minn úr Dalasýslu væri ekki að fara á þing.. En ég var mjög svekkt.. Svo í gegnum svefninn þá heyrði ég um fimm leytið að hann væri inni sem jöfnunarþingmaður... En allt gat breyst... Nýjar og nýjar tölur breyttu samt stöðunni ekkert og svo var bara eftir að fá tölur úr NA kjördæmi.. Ég hélt ég myndi deyja úr spenningi og þoldi ekki við og labbaði 5 km með hundinn þar til síðustu tölur kæmi og viti menn.. Jú hann var inni hann Ási... Ég man þegar einhver spurði hann  hvort hann ætlaði að vera bóndi á Lambeyrum alla sína ævi.. Þá svaraði hann snöggur til.. " Já nema þegar ég verð landbúnaðarráðherra..."...

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Skemmtileg helgi að baki

Á laugardaginn þá var uppskeruhátíð Leikdeildar Ungmennafélagsins Íslendings en nú er sýningum formlega lokið á Línu Langsokk. Púff segi ég nú bara.. Þetta er búið að vera rosalega gaman en það er líka ágætt að þessu er lokið.  Farið var til Reykjavíkur með rútu í Skautahöllina. Þemað var listdansbúningar og voru margir skrautlega klæddir og vakti hópurinn mikla athygli. Ótrúlegt hvað maður stóð í lappirnar á svellinu þrátt fyrir að tugir ára eru síðan ég var að skauta á Tjörninni í Reykjavík. Valdi flaug á afturendann tvisvar... Börnin voru hins vegar sleip í þessu og Linda var fljót að kasta hjálpargrindinni og fljúga af stað sjálf.

Um kvöldið var svo fjölskylduskemmtun á Kollubar þar sem þeir sem ekki stóðu á sviði áttu að sjá um skemmtiatriðin.. Humm.. já málið er að það er ástæða fyrir því að ég vil ekki standa á sviði en ég er alveg hæfileikalaus með öllu þegar kemur að söng, leik og dansi... Já þetta var slæmt.. en ágætt að fólk gat hlegið..

Á sunnudeginum þá fórum við suður í 2ja ára afmælið hennar Brynhildar Þórey (Dóttur Brjáns bróður og Karenar) en ég sé hana allt of sjaldan. Hún er þvílíkt falleg og góð stelpa og alveg einstaklega vel gefin ( Nei nei.. ég er ekkert hlutdræg..). Þá var brunað austur fyrir fjall en Linda þurfti að mæta í eigið afmæli klukkan 14.00 en hún varð 9 ára á páskasunnudag..

Páskarnir voru rólegir hjá okkur eða þannig.. ég vann svolítið og reyndi líka að slaka á.. Börnin voru ekki hjá okkur en við hittum þau á föstudaginn langa hjá Höllu systur hans Valda en Unnur og Einar voru á landinu frá Noregi með nokkurra mánaða dóttur sína hana Linneu Eir.

Annars var vikan fín. Valdi er loksins kominn með yfirlestur frá leiðbeinanda og það lítur vel út en hann mun vinna sig í gegnum það í vikunni. Tölvan mín er enn biluð og það er verið að bíða eftir varahlutum. Ég fór á skemmtilegt námskeið sl. 2 þriðjudagskvöld hjá Ingólfi í Engi um grasnytjar sem var mjög áhugavert. Annars er bara nóg að gera en ég er byrjuð að skrifa ritgerð um jurtalitun fyrir hlunnindakúrs sem ég er í og svo er alltaf vistfræðin...

Fjögur ný albúm: 1. Skautahöllin, 2. Lína (Bland í poka frá Línusýningum), 3. Linnea Eir, 4. Brynhildur Þórey 2ja ára.

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Opið hús á Hesti

Ekki höfum við verið dugleg að setja inn færslur undanfarið en að mestu er því um að kenna að það hefur verið einhver bilun í kerfinu svo ansi margar færslur hafa farið forgörðum og ekki birst.. Auk þess hefur bara verið rólegur hversdagsleiki í gangi hjá okkur og fá myndamóment eða ævintýri. En nú hef ég sett inn stutt album með hinu og þessu.

Valdi er að bíða eftir commentum frá leiðbeinandanum sínum í Svíþjóð varðandi mastersritgerðina og ég er svona eitthvað að hengslast í að byrja á minni en ég get loksins setið svolítið við skrifborð núna en brjósklosdæmið er að batna hjá mér. Valdi bauð í grisjun í Skorradalnum en fékk ekki og er því að undirbúa trjáklippingar og gróðursetningar til að hala inn einhverjum tekjum. Það lítur ekki vel út með vinnu hjá mér en ég er samt mjög upptekin í júní á plöntugreiningarnámskeiðum sem ég er að leiðbeina á og ég veit ekkert betra en að vera úti í móa að greina plöntur og fá borgað fyrir.

Tölvan mín bilaði um daginn en hún fór að hljóma eins og loftpressa og skyndilega neitaði hún að starta sig og sagði bara "fan error"... Panikk... Þar á undan hafði ég komist að því að allar Gvatemalamyndirnar mínar voru horfnar... En með aðstoð Guðjóns Tölvusérfræðings hér við skólann tókst að hafa upp á myndunum á gömlu geymsludrifi hjá mér.. Sjúkkitt... Þetta voru myndir sem ég ætlaði að nota í kennslu um ókomna tíð.. Tölvan er komin suður í meðferð...

Krakkarnir eru hér um helgina og við fórum á opna daginn að Hesti í gær.. Mér finnst svo gaman á svona landbúnaðarviðburðum. Þarna hittast sauðfjárbændur, sveitungar og líka nemendur lbhí að ógleymdum frambjóðendum sem voru iðnir að láta sjá sig og taka í spaðann á fólki. En ég er búin að taka í höndina á Jóni Bjarnasyni þrisvar sinnum á fáum dögum... Hann er iðinn við kolann... Þarna mátti sjá allskonar landbúnaðarvöruru til sölu svo sem traktora og smávélar en Valdi hélt ekki vatni yfir þessum vélum... Og auðvitað gátu svo krakkarnir klappað Hestfénu en Linda var sérstaklega hrifin af þríhyrndum hrút sem þarna var. Fyrst fór ég ein með börnin en þetta var svo gaman að ég dró Valda með beint eftir leiksýningu.. Hann rölti þarna um innan um bændurna enn með meikið á sér að hluta og var vel "gay" með eyeliner og brúnkukrem.... Úpps..

Í gærkvöldi var svo grillað í vorveðrinu og svo var horft á Gettu betur en ég var sár að MH skyldi ekki ná að vinna þetta... Munaði svo litlu... Síðan var farið út á Hólinn og kveikt upp í kamínunni.. svo kósí.. Bárður vinur hans Jakobs (Sonur Bjarkar vinkonu) var hjá okkur í fyrrinótt en svo fór Jakob upp á Hvamm í gær og gisti.. Við sækjum hann á eftir..

Nýtt albúm, Hestur, Lína og Grill

Leiksýning í dag og Suðurlandið í kvöld.


Pípulagnir og prjónakvöld..

Lítið að frétta af hólnum... Krakkarnir voru hér síðustu helgi en við Valdi vorum bæði föst á Línu-sýningum föstudag, laugardag og sunnudag... Krakkarnir komu með á laugardeginum. Sýningarnar ganga vel og það var uppselt nær alla helgina.  Laugardagskvöldið var næs ég gerði pizzur á línuna og allir borðuðu heila pizzu nema ég... Yfir sjónvarpsglápi kvöldsins þá var rabbarbabarapæ og ís... Næs.... ég fylgdist með Gettu betur en ég var á sínum tíma í MH og það var magnað hvernig þau laumuðust framúr á síðustu sekúndu.... 

Ég fór á áhugaverðan fyrirlestur um Svalbarða í gær hjá Ingibjörgu Svölu prófessor.. Mig dauðlangar til Svalbarða en ég held að þar sé mikið um fléttur og skófir sem væri gaman að skoða..

Í dag hefur Valdi verið við pípulagnir en það var alveg hætt að flæða niður úr baðherbergisvaskinum.. Eftir miklar tilfæringar og eina ferð í Húsasmiðjuna þá höldum við að þetta sé komið...

Valdi er að kleperast á ritgerðinni sinni og getur ekki beðið eftir að þetta verði búið. Ég er mest að vinna fyrir Áskel í Greinasafninu þessa dagana en það myndaðist smá pása í vistfræðinni vegna prófaviku nemenda. Ég get svona að mestu setið við skrifborð þessa dagana en eftir sjúkranudd og sjúkraþjálfun í mánuð þá er þetta allt að koma með axlarverkina mína... Ég fékk líka fína græju lánaða sem er hengd á hurð og í hausinn á mér og ég toga... það gerir ágætis gagn til að teygja hálsliðunum.... (Valda þykir þetta heldur fyndið tól....  en ég hef falið allar myndavélar í húsinu)..

Í kvöld ætla ég á prjónakvöld hjá Ullarselinu og á morgun þá ætla ég að gera kæfu, samhliða því að gera nýtt verkefni í vistfræðinni..

Bestu kveðjur


Frumsýningarhelgin

Jæja þá er löngu og ströngu æfingarferli á Línu Langsokk lokið.  Síðasta vika var undirlögð af æfingum og undirbúningi.  Generalprufan var á föstudagskvöldið, það var greinilegt að þreyta var í mannskapnum en samt gekk sýningin vel.  Við frumsýndum svo á Laugardaginn fyrir fullu húsi.  Frumsýningin gekk ljómandi enda lögðust allir á eitt um að gera þessa sýningu góða, Krakkarnir stóðu sig öll eins og hetjur.  Lína, Tommi, Anna, Herra Niels og löggurnar fóru á kostum í þessari sýningu að öðrum ólöstuðum.  Eftir frumsýningu skelltum við okkur í pottinn og síðan var pizzu veisla með sem betur fer fáum og stuttum ræðum.  Í gær sunnudag sýndum við aftur fyrir næstum fullu húsi, sú sýning gekk líka glimrandi vel og fengum við ekki síðri móttökur en á frumsýningunni,  við héldum bara að gestirnir ætluðu ekki að hætta að klappa.   Aðstandendur þessarar sýningar geta verið stoltir af henni og leikstjórinn Ása Hlín Svavarsdóttir á heiður skilið fyrir að hafa leitt okkur í gegnum þykkt og þunnt til að ná þessum árangri og sýnt ótrúlega þolinmæði á köflum.

Í gærkvöldi fór Guðrún í tilrauna eldamensku á kjúkling sem endað í einum versta kjúklinga rétti sem við höfum smakkað.  Annars er Guðrún öll að koma til í öxlinni.  Hún eyddi helginni í að þvo reyfi, prjóna og vinna í tölvunni.  Kátur hefur verið duglegur að viðra Guðrúnu þegar ég hef verið að sinna glæstum leikferli mínum.. 

Til að sjá fína gagnrýni um Línu Langsokk þá má klikka hér: http://www.skessuhorn.is/Default.asp?sid_id=24845&tId=99&Tre_Rod=001|002|&fre_id=84990&meira=1

Hér er smá auglýsing um sýninguna.

 Leikdeild Umf. Íslendings er að sýna leikritið um hana Línu Langsokk í Brún í Bæjarsveit. Leikstjóri er Ása Hlín Svavarsdóttir og tónlistarstjóri Zuszanna Budai. Þetta er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Endilega farið og sjáið þetta skemmtilega leikrit. Miðaverð er 2.000 kr. en kjarnafjölskyldan borgar aldrei meira en 6.000 kr.

Sýningar verða eins og hér segir:

Föstudaginn 20. mars 2009 kl. 20:00
Laugardaginn 21. mars 2009 kl. 14:00
Sunnudaginn 22. mars 2009 kl. 14:00
Sunnudaginn 29. mars 2009 kl. 14:00

Miðapantanir í símum: 661-2629 (Beta) og 437-1227 (Eyfi Kiddi og Magga)

Fleiri sýningar verða auglýstar síðar!

Endilega allir að kíkja á Línu og í kaffi á Álfhólinn í leiðinni. 

Bestu kveðjur úr vetrarveðri á Hvanneyri 


Lína Langsokkur á lokaspretti...

Jæjja þá er vika í frumsýningu... Valdi var á æfingu í allan dag og ég og börnin kíktu við og þetta er að verða svo flott..  (Sjá albúm) Linda var svo eftir og skemmti sér vel að fylgjast með atriðunum. Svo var Pizza í lokin því allir höfðu staðið sig svo vel. 

Öxlin er að drepa mig... sjúkranuddið virkað vel fyrst en svo var ég að drepast á föstudag og í dag laugardag... Ég er búin að panta tíma hjá lækni í Borgarnesi á mánudaginn og sjúkranudd á þriðjudaginn... Eins og er er ég óvinnufær við tölvu því ég bara get ekki setið, hvorki í bíl né við tölvu.. Ég er hins vegar búin að komast að því að ég get legið í sófanum og prjónað svo allur prjónaskapur gengur vel þessa dagana en vinnan síður... 

Við fórum suður til að klára að þrífa húsið í gær, sem var reyndar hreint, en leigjandinn hefur ekki enn tekið við þó hann sé búinn að borga... Húsið er glimrandi og svo fórum við og sóttum ljósaperu fyrir útiljósið en það var einhver sértegund sem við höfðum pantað... Ó my god.. hún kostaði 7000 kr. Shitt... Og til að toppa það þá keypti ég axlanuddtæki í Heimilistækjum svo reikningurinn var  yfir 10 þúsund kall... En ein pera  7000 kr... woww.. eins gott hún dugi vel og lengi.. Ég reyndar held að rafveita Mosfellsdals geti sparað sér ljósastaurana því ljósið lýsir vel niður dalinn.... 

Í dag fór Valdi á æfingu eins og áður sagði og ég og börnin fórum upp í Hvítársíðu og löbbuðum um Kolstaði í dag.. Ég elska þessar gönguferðir með Kvenfélaginu.. Þær eru svo yndislegar.. Í smá dagstund þá þykist maður bara vera Hvítsíðingur og það er næs... Kuldinn var gríðarlegur en umhverfið var ægifagurt. Við gengum að gamla bæjarstæðinu og þar var mér sagt að þetta hefði verið sviðsmyndin fyrir Óðal feðranna sem er snilldarmynd eftir Hrafn Gunnlaugsson... Við fórum inn í gamla hlöðu þar sem var tundurdufl sem notað var sem olíugeymir... Merkilegt...

Tær og puttar þiðnuðu innandyra á Kolstöðum þar sem húsráðandi bauð upp á fínasta bakkelsi og kaffi. Heimilið var fallegt og þar voru ýmsir áhugaverðir hlutir eins og uppstoppaðir fuglar og gömul verkfæri til skrauts.  Á Kolstöðum er ekki búskapur en þar er einhverskonar menningarstarfsemi sem ég kann ekki skil á.. Þarna var skemmtilegur garðskáli sem  bar þess merki að húsráðendur væru miklir gestgjafar og svo var þarna einhverskonar upptökuver eða tónlistarsalur eða menningarsalur sem var fullur af fallegum hlutum og bar merki um gríðarlega smekksemi húsráðenda... Myndir frá gönguferðinni má sjá í albúmi en ég sleppti því að mynda innandyra en það hefði líklega talist dónaskapur... 

Skemmtilegur dagur að baki en stefnt er á hrygg og afslappelsi í kvöld..  

Tvö ný albúm: Lína og Kolstaðir 


Vetrarveður á Hvanneyri

Tvö ný albúm:

1. Gengið um Hvammslandið er frá gönguferð kvenfélags Hvítársíðu um Hvamm þar síðustu helgi.

2. Kátur og Valdi moka snjó. Það skemmtilegasta sem Kátur gerir er að leika sér í snjónum. Valdi fór út að moka í morgun og Kátur flippaði alveg af gleði...

Annars er rólegt hjá okkur. Síðasta föstudag fórum við í tvöfalt fertugsafmæli í bænum hjá Þórunni frænku og Gunnari manninum hennar. Hlaðborðið var stórfenglegt en það var svona villibráða dæmi.. Nammi, namm.. hreindýrabollurnar...

Helgin fór í leikæfingar og allskonar stúss en ég er loksins komin niður "to do" listann hjá mér sem hafði lengst svolítið undanfarið. Nú loksins kom líka smá pása í vinnu hjá mér þar sem það er prófavika hjá háskóladeildinni en þá vaknaði ég upp einn morguninn í síðustu viku  með verki í öxlinni... Andsk..... ég er búin að vera alveg bakk út af þessu, stöðugir verkir, eymsli og vanlíðan. Í gær fór ég svo til sjúkranuddara sem lamdi mig í spað og ég kom bara heim og krassaði niður í rúm í 3 tíma... Ég held ég sé að mýkjast en ég fer aftur til sjúkranuddarans á morgun en ég held hún sé snillingur þessi kona... Virtist sko alveg vita hvað var í gangi og hvað hún væri að gera þó það væri sárt... Ég held hins vegar að hún hafi náð að ýta eitthvað við gamla rifbeinsbrotinu mínu svo nú er mér ílt þar líka..

Valdi er að vinna í ritgerðinni og svo eru leikæfingar hjá honum.. Það er vetrarveður hér á Hvanneyri núna og bara kósí að sitja inni og vinna. Ég hef líka verið dugleg að prjóna undanfarið...

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Glámur og Glúmur á ferð..

Nú fer að líða nær frumsýningu á Línu Langsokk en það er rétt fyrir miðjan mánuðinn.. Nóg er eftir að gera og æfingarnar farnar að þéttast svolítið. Næstu helgi verða æfingar bæði laugardag og sunnudag.. Púff.. En þetta er ljómandi gaman.. Ég er hvíslari en Valdi er Glámur ásamt Sigga hennar Ástu Kristínar sem er Glúmur.. Þeir eru flottir félagarnir..

Annars er mikilli törn að ljúka hjá mér núna.. Ég skilaði af mér 20 plöntulífeðlisfræðimöppum sem var afrakstur verklegu plöntulífeðlisfræðinnar... Og svo fór ég yfir 80 próf í vistfræðinni og svo 60 verkefni í vistfræðinni.. Þessu var ég að skila af mér í dag það er að segja vistfræðinni.. Eftir hádegið var ég að kynna sumarnámskeiðið í plöntugreiningu í bændadeildinni fyrir þeim.. Ég lét þau líka búa til greiningarlykil fyrir skrúfur eins og Sigríður Dalmannsdóttir lét krakkana sína gera í háskóladeildinni og það svínvirkaði... Svo gaman..

Valdi er farinn að fara niður á gömlu lesstofuna þar sem bókasafnið var, til að vinna sína ritgerð og það gengur ágætlega.. Ég er ekkert byrjuð að huga að minni en hlýt að fara að komast í gírinn þegar vinnunni léttir..

Ég fór í þjálfun í Ullarselið í dag en ég á að vera til taks til að taka á móti hópum og afgreiða. Mér finnst það mjög gaman að fá að vera involveruð þar innan um allann lopann, ullina og þetta yndislega handverk..

Við ætlum að reyna að komast í gönguna með kvenfélagi Hvítársíðu en nú verður gengið um Kirkjuból sem er við hliðina á Björk og Torfa á Hvammi.. En á morgun förum við suður til að klára að strjúka yfir allt í húsinu í síðasta sinn en loksins kemur nýr leigjandi um mánaðarmótin og svo förum við í fertugsafmæli hjá Gunnari og Þórunni.

Hér er linkur á frétt um Viskukúna úr Íslandi í dag en ég var afskaplega montin af beljunni minni... http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=STOD2&programID=b2fab606-e8f9-4500-a4d9-15008d8978da&mediaSourceID=0a3864b7-564a-4213-b083-74eeeaa9d07c&mediaClipID=cb81812e-7092-44bf-8199-d407d82f1f16

Bestu kveðjur frá Álfhól


Viskukýrin 2009

Jæjja þá er Viskukýrin loksins búin.  Valdi kom heim á miðvikudeginum og hjálpaði mér við undirbúninginn en það var nóg að gera. Á síðustu stundu kom í ljós að Ísland í dag ætlaði að mæta og taka upp innslag á Viskukúnni og það þurfti að sinna því. Ég eldaði kjötsúpu handa öllum sem komu að keppninni en við hittumst alltaf heima hjá mér fyrir keppnina til að slaka aðeins á og borða. Þangað komu Logi og Ísland í dag fólkið og svo héldu allir upp í skóla.

Keppnin gekk alveg ljómandi vel en ég held að yfir 200 manns hafi komið á viðburðinn og allir skemmtu sér konunglega. Logi fór á kostum að vanda og gerði grín bæði að spurningum og keppendum. Í ár vann lið umhvefisskipulags sem rétt mörðu lið starfsmanna Lbhí í síðustu spurningu.. Mjög spennandi keppni. Lið heimamanna datt út í fyrstu umferð  en þeir hafa sigrað undanfarin tvö ár. Einar K. Guðfinnsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra og þingmaður norðvesturkjördæmis veitti Viskukúna og ég held hann hafi bara haft gaman af þessu uppátæki okkar.. 

Ég er búin að vera svona hálf bakk eftir þessa törn en krakkarnir hafa verið hjá okkur um helgina og við fórum á laugardagsmorgni upp í Hvítársíðu til að labba með kvenfélaginu sem fer þar í gönguferðir um hverja helgi á sitt hvorum bænum. Í gær var gengið um jörð Haukagils en það var yndislega fallegt þarna og veðrið var frábært. Síðan fórum við í kaffi til Torfa og Bjarkar á Hvammi sem er við hliðina á Haukagili. 

Í dag vorum við Valdi föst á æfingu á Linu langsokk hjá Ungmennafélaginu en ég lét plata mig í að vera hvíslari og Valdi leikur Glám sem er frekar treggáfaður þjófur... Bara gaman..

Tvö ný albúm: Viskukýrin og Hvítárganga 

Bestu kveðjur frá Hvanneyri 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðrún og Valdi

Höfundur

Guðrún og Valdi
Guðrún og Valdi

Fyrir framan Álfhólinn á Hvanneyri..

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband