Sunna 18 ára í dag

Við vorum að setja inn nokkur ný albúm.

Hvítárveiði: Valdi og aðrir meðlimir í veiðifélaginu Kela að leggja net í Hvítána.  

Tré ársins: Atöfn þar sem tré ársins var útnefnt í Borgarnesi. Purpurahlynur.

18 ára afmæli og nýfædd: Ein mynd frá kvöldverðarboðinu í gær þar sem við héldum upp á 18. ára afmæli Sunnu. Og svo eru nokkrar myndir af dóttur Baldurs Helga og Elínar er nún er gullfalleg 12 daga gömul. 

Körfuboltamaraþon: Nokkrar myndir frá körfuboltamaraþoninu sem fram fór hér á Hvanneyri síðustu helgi. 

Annars er fínt að frétta. Afmæli Sunnu er í dag en hún er orðin 18. ára. Það var haldið upp á það í gærkvöldi með veislu þar sem Steinunn, Gústi og Lísa (hundur) og Halla og Árni komu í mat. Þetta var ljúf kvöldstund og ég held að maturinn hafi verið ljómandi góður en við bárum fram lambafile með gratíneruðum katöflum en í desert var Rabbabararúna sem klikkar ekki. í dag verður afmæliskaka..

Í morgun komu Baldur og Elín með nýfædda dóttur sína í heimsókn. En þau eru á leið norður. Sú litla var náttúrulega elger dúlla, lítil og sæt.

Ég fór í fyrsta tímann í HÍ sl. miðvikudagsmorgun. Ég lagði snemma af stað til að vera örugglega á réttum tíma en ég er mjög stundvís. Það vildi hins vegar ekki betur til en svo að ég lenti í morgunumferðinni  í Reykjavík sem var skelfileg og ég kom 15 mín. of seint í Þjóðarbókhlöðuna bara til að frétta að tíminn var í Þjóðskjalasafninu.. Úpps... Ég brunaði upp eftir og sá hópinn minn fara á milli bygginga.. ég henti mér í stæði og inn og spurði þar ungan dreng hvort þetta væri "heimildafræðin" jú hann hélt nú það... En þá sagði kennarinn.. Ok.. held við látum þetta duga í dag.. sjáumst í næstu viku... ÉG MISSTI AF TÍMANUM.... 

Annars líst mér vel á fagið en ég spjallaði við kennarann og fékk allar upplýsingarnar sem mig vantaði..

Kennslan gengur vel en hún tekur MIKINN tíma... Ég er núna í 50% vinnu en held ég sé að vinna allvega 100%.... skil ekki hvernig á að vera hægt að gera þetta á minni tíma svo vel eigi að vera..

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Haustið hafið..

 

Haustdagskráin er hafin hjá okkur þó haustið sé ekki alveg skollið á í náttúrunni sem betur fer en það er yndislegt veður úti núna.. Hins vegar er þetta svo sjarmerandi tími... farið að dimma.. nýir nemendur á vappi út um allt og allt í einu fær maður ekki bílastæði hjá skólanum.. (OK.. ég skal labba í vinnuna)... 

Nú er komin haustrútína hjá mér... Ég kenni klukkan 8:15 þrjá daga í viku og ég ÆTLA að fara í ræktina strax eftir tímann... ÉG SKAL... Þriðjudagskvöld er ég á keramik námskeiði hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur og gisti þá hjá Gerði systur og fer svo í HÍ í tíma í Heimildaleit í skjalasöfnum sem er í sagnfræðideildinni, strax á miðvikudagsmorgninum...  Svo koma tvær lotur í grunnkúrsum í mastersnáminu. Mér líst mjög vel á Aðferðafræðina.. kennslan þar lítur út fyrir að vera alveg MÖGNUÐ... Og svo er Vísindaheimspeki/siðfræði... Rosalega vel skipulagt sýnist mér en ég bara get ekki feikað upp áhuga á svona hlutum.. En ég gef þessu góðan séns og fer í þetta með opnum hug.. En þessi mastersnámskeið eru kennd tvisvar sinnum,  í viku í senn..

Valdi hefur átt langa daga uppi í Skorradal með Káti að mæla fyrir mastersverkefnið. Það gengur loksins vel en það hefur gengið hægt hingað til..

Við fórum í afmæli til Þóru á Hellum um helgina en hún var þrítug. Þetta var ekkert smá glæsileg veisla en flest allar veitingarnar voru heimaræktaðar eða veiddar.... Ummmmm svo gott og glæsilegt... Þóra líka alveg stórglæsileg þrítug með mastersprófið á leiðinni í haust.. Ég verð líka að segja að frændfólk Þóru er með skemmtilegra fólki sem maður hittir.. Ég var hins vegar í einhverju vinnupanikkkasti og dró Valda með mér heim tiltölulega snemma...

Á laugardagsmorgninum fórum við í körfuboltamaraþon en það var haldið hér í íþróttahöllinni (100 ára gamalli) til styrktar (eða heiðurs) Sverri Heiðari kennara sem berst við krabbamein.. Þetta var frábært framtak hjá strákunum hér á Hvanneyri sem spiluðu körfubolta frá 6.00 um morguninn til miðnættis... Þrjú lið hjá þeim sem skiptust á... Við Valdi og Sissí spiluðum klukkan 7 um morguninn.. JÁ ÉG SAGÐI SJÖ UM MORGUNINN... það var reyndar æðislegt.. en ég get ekki sagt að ég sé hæfileikaríkur körfuboltaspilari... Fyrir hvern leik borgaði maður 1000 kall á haus (þrír í liði) og Valdi spilaði svo annan leik seinna um daginn með Önnu Lóu og Kjartani.. Hver leikur var 15 mín og ég held að dagurinn hafi verið nokkurn veginn fullbókaður og jafnvel færri komist að en vildu...

Um kvöldið fór Valdi svo og fylgdist með lokasprettinum en þar var múgur og margmenni að fylgjast með þegar Rannsóknastofan, í hvítum sloppum og með latex hanska sýndi stórleik....

Glæsilegt framtak...

Á sunnudeginum fór Valdi og mældi tré ársins í Borgarnesi við athöfn sem þar var á vegum Skógræktarfélags Íslands.. Tréð er Garðahlynur og er stórt og fallegt...

Ég kenndi fyrstu kennslustundirnar í morgun.. Líst vel á hópinn enda allir mættir vel fyrir tímann svona í fyrsta sinn.... Held þetta hafi bara gengið vel...  

Já haustið leggst vel í okkur hér á Álfhólnum

Bestu kveðjur


Veiðifélagið Keli

Nú eru komin inn þrjú ný albúm:

1. Landbúnaðarsýningin á Hellu þar sem ég var að vinna alla síðustu helgi. Sýningin var vegna 100 ára afmælis Búnaðarsambands Suðurlands og var frábærlega að henni staðið. Ég hugsa að allavega 15.000 manns hafi komið þarna alla helgina þrátt fyrir menningarnótt og maraþonið í bænum og skítaveður á Suðurlandi. Hins vegar ættu sjónvarps fréttastofur Rúv og Stöðvar 2 að skammast sín þar sem ekki var minnst á þennan viðburð í kvöldfréttum laugardags eða sunnudags.. SKAMM SKAMM... Sjálfhverfu Reykjavíkurfjölmiðlar

2. Ferlaufungur. Friðaða plantan sem Valdi kom með heim handa mér óafvitandi að hann væri friðaður..

3. D-Dagurinn. Dráttarvéladagurinn á Hvanneyri sem haldinn var fyrr í sumar en það er alltaf gaman þegar þessir dráttarvéladagar eru og þá er mikil stemning á Hvanneyri. 

Annars er bara allt fínt að frétta þrátt fyrir brjálað veður og flensuskít hjá mér... Ég tók á móti fjarnemum sl. miðvikudag og kynnti fyrir þeim kennslufyrirkomulag vetrarins og svo koma staðarnemarnir í næstu viku svo ég sit hér sveitt við að útbúa kennslugögn og átta mig á hlutunum.

Valdi er búinn að vera að mæla í Skorradalnum alla vikuna auk þess fór hann að leggja net en Hvanneyrarskóli á rétt á að leggja net í Hvítánni á ákveðnum tímum og það var stofnað veiðifélag í kringum það stúss og heitir það "Veiðifélagið Keli"... Aflinn eru nokkrir fiskar td. flundra, bleikja, urriði og ufsi en ekki má veiða lax í net.  Þeir skiptast svo á félagarnir að vitja netanna og leggja aftur... Bráðum koma inn myndir af því.... 

Annars stefnir í rólega vinnuhelgi en ég þarf að sitja við og undirbúa kennsluna en hins vegar þurfum við að vakna snemma í fyrramálið til að taka þátt í körfuboltamaraþoni sem fer fram hér um helgina... Leikurinn okkar  er klukkan 7.00...... Auk þess er afmæli sem við förum í síðdegis og svo er tré ársins afhjúpað í Borgarnesi á sunnudaginn... Æi.. kannski verður þessi helgi ekki eins róleg og ég hélt....

Bestu kveðjur frá Hvanneyri 


Bakverkir og jurtagreining

Síðustu viku hefur einhver slæmur bakverkur verið að plaga mig en hann tók við af náraverknum... Er ég að breytast í aumingja eða hvað?

En af einhverjum undarlegum ástæðum þá er bakverkurinn skárri í dag þrátt fyrir að ég hafi verið á fótum síðan 6:30 í morgun og staðið upp á endann í allan dag á Landbúnaðarsýningunni á Hellu og kynnt Landbúnaðarháskólann. En þessi dagur hefur verið hreint út sagt frábær... Sýningin var frábærlega vel lukkuð og þrátt fyrir þvílíkt skítaveður þá var alveg pakkað af fólki. Fyrir mér þá var þetta geggjað rejúníon... en ég er búin að hitta svo marga gamla vini að það hálfa væri nóg. Svo er ég líka búin að brosa út í eitt og svara spurningum um skólann og þær hafa verið margar... Ég skaust svo frá í dag til að taka þátt í keppni í jurtagreiningu... Ég er búin að undirbúa mig svolítið verð ég að viðurkenna.. Ég var nú svona bara að hugsa þetta í ungmennafélagsanda "að vera með" en svo brast á með einhverjum brjáluðum keppnisanda og ég ýtti frá konum og börnum sem voru fyrir mér og ruddist áfram... Nei OK.. kannski ekki alveg.. En ég stormaði fyrst með listann til stjórnandans.. Og fór svo bara í básinn minn.... Það kom svo í ljós að ég var í öðru sæti... Veit ekki hvað við vorum mörg.. 10-13 ca.. En ég er himin lifandi með að vera í öðru sæti... Einu stigi tapaði ég vegna rangra upplýsinga frá starfsmanni og hinum stigunum (sem voru ekki mörg) tapaði ég vegna klaufaskapar.. en ég vissi nöfnin á öllum plöntunum.. En þetta var gaman... Konan sem ég tapaði fyrir er vön að taka þátt í þessum keppnum og víst rosalega klár í þessu.. Ég held það hafi munað 2 stigum á okkur.. af 37 plöntum... Gaman gaman.. Ég gekk um með medalíuna mína í allan dag og ef fólk tók ekki eftir henni þá bara veifaði ég henni grimmt.... Bara smá montin..

Jæjja nú er ég á leið út að borða ein en ég hef ekkert borðað af viti síðan ég fékk ceríós í morgun... Ég hef náð að fá smakk bita hér og þar í salnum en annars bara kaffi.. röðin í veitingarnar var of löng..

Valdi er með krakkana þessa helgina en þau voru að stússast í bænum í dag en eru núna í mat hjá Afa Reyni.. Þau koma líklega á sýninguna á morgun en vonandi hef ég tíma til að hitta þau..

Bestu kveðjur frá Hellu


Logn á Hvanneyri..

Jæjja nú er tölvan komin úr meðferð hjá Guðjóni svo við getum farið að setja inn myndir. Ég er hins vegar svo sifjuð í kvöld að ég setti bara inn eitt albúm sem heitir Brynhildur Þórey á Hvanneyri...  En þar eru örfáar myndir frá því þegar Brynhildur Þórey dóttir Brjáns bróðurs kom á Hvanneyri...

Annars er bara fínt að frétta. Valdi fyrir Austan og ég og Kátur ein í kotinu.. Brjálað að gera í vinnunni... Stundataflan komin fyrir veturinn og ég kenni yfirleitt kl. 8.15 á morgnana.. Ég held þetta hafi verið einhver slálfspíningarkvöt þegar ég bauðst til að vera með morguntímana... En það er fínt því þá nýtist dagurinn betur...

Síðustu daga hefur verið yndislegt milt veður á Hvanneyri og eiginlega hefur sumarið verið bara alveg frábært. Hér hefur verið logn dag eftir dag sem er ótrúlegt á Hvanneyri sem er náttúrulega þvlíkt rokrassgat ef satt skal segja.... Og í dag var enn og einu sinni bongóblíða og nánast logn. Yndislegt...

Við Kátur röltum til Bjarkar áðan en það er allt of langt síðan við vinkonurnar höfum setið yfir kaffibolla en það fór svo að ég borðaði kvöldmat hjá henni og rölti svo heim með Kát klukkan níu..

Hekla litla hennar Bjarkar er náttúrulega alger rúsína... Hún er svo dugleg að tala og hún segir "urún" (lesist Guðrún) og "tur" (lesist Kátur).... Torfi var að sækja hana þegar ég kom og hann lofaði að koma með smá knippi af byggi handa mér næst þegar hann kemur til að nota til að sýna fjarnemum þegar þeir koma í næstu viku.

Í dag fór ég í stuttan göngutúr með Rikka (Ríkarð Brynjólfssyni) sem er grasasérfræðingur skólans en ég bað hann að rifja upp með mér helstu túngrösin.  Vallarsveifgras og Varpasveifgras og svo frvs. Língresin eiga td. til að ruglast í hausnum á mér en Rikki sýndi mér margt og mikið svo nú er ég  viss um að þekkja þetta allt örugglega í sundur..

Jæjja kannski skelli ég inn fleiri myndum á morgun ef tími vinnst til..

Kveðjur frá Hvanneyri


Nóg að gera..

Já nú er brjálað að gera...

Valdi er búinn að vera langa daga uppi í Skorradal að mæla fyrir mastersverkefnið.. Kátur er með honum svo hann hefur lítið viðrað mig síðustu daga enda hef ég verið að vandræðast með einhvern náraverk sem gerir það að verkum að ég er ekki mjög hreyfanleg..

Um hádegið lagði Valdi af stað austur á Egilsstaði ásamt Kjartani en Valdi bað Kjartan um að fá lánaða vélsleðakerruna hans þar sem engin kerra á bensínstöðvum virtist henta okkur og auk þess talsvert dýrt að leigja lokaða kerru í marga daga... En Kjartan brást vel við og ekki bara lánaði Valda kerruna heldur fylgdi hann sjálfur með í dílnum.. Snilld... nú fær Valdi félagsskap alla leið og Kjartan kemst á gæs.. eða eitthvað svoleiðis.. Snilld.. góður díll.. Valdi er að fara á skógræktarráðstefnu og í leiðinni ætlar hann að sækja þessa tvo sófa sem við eigum fyrir austan ásamt ísskáp og litlu sjónvarpi... Þetta dót hefur verið í búslóðageymslu frá því síðasta sumar þegar Valdi hélt til fyrir austan..

Af mér er það að frétta að ég er að drukkna í vinnunni... Ég var beðin um að taka að mér kennslu í bændadeild fram til jóla, 3 einingar í Nytjajurtum og jarðvegsfræði.. Snilld. Ég er svo spennt að gera þetta en það verður gaman að spreyta sig á kennslu fyrir alvöru,  ásamt umsjón með fjarnemum.

Jæjja best að hökta út með hundinn í myrkrinu en nú er ég ein í kotinu en Valdi hefur yfirleitt séð um kvöldrölt hundsins..

PS. fleiri myndir koma um leið og tölvan kemur úr meðferð hjá tölvudeild lbhí á næstu dögum..

Bestu kveðjur frá Hvanneyri 

 


86 ára, ríkur og einhleypur!!!

Sl sunnudag komu Brjánn og Karen með Brynhildi Þórey í kaffi.. Ó hún er svo mikil rús litla frænka.. Hún fór alveg á kostum að reyna að "klappa" (lesist klípa...)  Kát sem forðaði sér enda búinn að fatta að fólk af þessari stærð er ekki mjög vinsamlegt.... Sú stutta sótti stígvélin hans Valda fram í forstofu og vildi endilega máta og labba um í þeim og skildi ekkert af hverju pabbi sinn hélt fast í hana en stígvélin voru eins og allt of stórar vöðlur á þeirri stuttu...

Valdi er allveg á kafi í mælingum í Skorradal fyrir lokaverkefnið sitt.. Þessa dagana er hann með Íra sem aðstoðarmann frá Skógrækt ríkisins á Vesturlandi. Kátur fer alltaf með þeim en hann er svo þægur og góður úti í skógi og fylgir þeim alveg eftir.. 

Ég var að gæda hóp af Ameríkönum sl. þriðjudag.. Ég átti að þrusa yfir þeim um íslenskan landbúnað og rölta svo með þeim í Kirkju, Landbúnaðarsafn og Ullarsel.. Ég var eiginlega mjög stressuð því ég hafði ekki alveg skýrar upplýsingar um hvernig hópurinn væri.. Hvort þau vildu hevý fyrirlestur um íslenska kvótakerfið og töllalögin eða bara létta útgáfu af landbúnaðinum.. Svo kom í ljós að þetta voru eldriborgarar sem vildu miðlungs létta útgáfu af fyrlestrinum og ég fór alveg á kostum verð ég að segja og þau hlógu að öllum lélegu túristabröndurunum mínum svo ég færðist öll í aukana og komst í gríðarlegt stuð og alltaf hlógu þau.. Einn gamli maðurinn frá OHIO minnir mig... var mikið að spjalla og ítrekaði að hann væri einhleypur og ríkur og 86 ára gamall!!!!! HJÁLP...

Þriðjudagskvöldið þá komst Valdi loksins í að járna Nóra svo nú fer hann að skella sér á bak loksins. Faldur er enn Suður í Landi og kemur líklega ekki þaðan fyrr en búið er að panta ferð í sláturhúsið fyrir hann... Astra verður áfram fyrir Norðan hjá Valda og Steinunni enda þykir okkur ekki taka því að sækja hana yfir hálft landið fyrir stuttan notkunartíma en við verðum ekki með hesta á húsi í vetur þar sem Valdi verður talsvert í Svíþjóð eftir áramót. Nóri var járnaður hér á hlaðinu og þegar síðustu fjaðrirnar fóru undir þá var eiginlega orðið mjög dimmt en útiljósið reddaði einhverju...

Í dag var Valdi að svolítið sætur og kom með blóm handa mér úr Skorradalnum.. Þegar hann mætti heim úr vinnunni rétt fyrir sjö þá rétti hann mér fallegt "blóm" eða allavega skrýtna jurt og heldur var minn rogginn á svipinn þegar hann sagði "Ég kom með blóm handa þér.... "    Og ég saup  hveljur.... Hann hafði fundið ferlaufung sem er friðaður á Íslandi... VALDI!!!!!!!!! Skamm skamm... Hann hafði náttúrulega ekki hugmynd um hvað þetta var en hann vissi allavega að þetta hlyti að vera eitthvað merkilegt því hann hafði ekki séð þetta áður...... Já merkilegt var þetta... Og rækilega dautt núna!!!!!  

Myndir koma vonandi seinna af Brynhildi í "vöðlunum" og frá D-Deginum en tölvan mín er eitthvað í óstuði þessa dagana...

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Sveittir Clapton tónleikar og D-dagurinn

Í gær fórum við Valdi í bæinn en við þurftum að útrétta eitthvað... Þetta var eiginlega martraðarferð þar sem við stefndum á Rúmfatalagerinn, Ikea, Húsasmiðjuna, Smáralindina, Garðheima og Elkó í föstudagsumferðinni.. Enda var geðheilsa okkar hjóna orðin heldur tæp á köflum... En allt hafðist þetta þó að lokum..

Um kvöldið fórum við á Clapton tónleikana. Tónleikarnir sem slíkir voru fínir, Clapton góður en ég saknaði þess að heyra ekki Leila og Tears in heven..  En það verður að segjast að Íslendingar hafa aldrei verið góðir í fjöldastjórnun og hvað þá að vera í fjölda og haga sér sem fjöldi... Við mættum klukkan 19.30 og byrjuðum á salerninu en Valdi komst að en ég sleppti því þar sem röðin var löng... En ég skil ekki hvernig er hægt að vanmeta klósetþörf, bjórþörf og súrefnisþörf 12.000 Íslendinga á tónleikum. Við biðum í 45 mínútur eftir að fá að kaupa vatn og við gátum ekki hamstrað það af "öryggisástæðum" þar sem við fengum ekki tappann með... Hitinn var svakalegur, röðin á klósetið og í veitingarnar var of löng...  Bjórinn of dýr og vatnið líka... Eina súrefnið sem við fengum á tónleikunum var þegar við fórum út í reyksvæðið þar sem það var alveg að líða yfir mig inni í sal af hita og svita.. 

En það er alltaf ákveðin stemning að fara á tónleika og dilla sér svolítið... Góða skapið var allsráðandi hjá flestum þrátt fyrir hitann og svitann... Og alltaf gaman að sýna sig og sjá aðra á svona viðburðum...  Við vorum heppin með bílastæði og smugum framhjá umferð og örtröð og heyrðum svo Leila í útvarpinu á Bylgjunni þar sem margir höfðu hringt og beðið um lagið í sárabót fyrir að því var sleppt á tónleikunum. 

Laugardagurinn var frábær. Krakkarnir höfðu komið kvöldið áður meðan við vorum á tónleikunum og svo var von á gestum um daginn.. Það var nefnilega Dráttarvéladagurinn í dag þar sem haldið var upp á 90 ára afmæli veru dráttarvélarinnar á Íslandi og einnig var haldið upp á 80 ára afmæli Hvítárbrúarinnar. Mikið var um að vera hér á Hvanneyri og meðal annars var smíðuð stærsta dráttarvél á Íslandi og líka frumsýnd uppgerð dráttarvél sem var fyrsta díselvélin á Íslandi. Hátt í 300 manns voru á svæðinu í frábæru veðri. Það var dásamlegt að fylgjast með út um eldhúsgluggann þegar dráttarvélarnar og fólkið var að mæta á svæðið... En ég hafði staðið í ströngu í bakstri um morguninn því von var á Elínu Björk og hennar manni og syni í kaffi og auk þess kræktum við í Elínu og Baldur Helga í kaffi.. En svo skemmtilega vill til að Elín og Elín eiga báðar von á barni.. Elín og Baldur núna eftir nokkra daga Elín Björk í nóvember.. Einnig komu í kaffi Hildur og Þórarinn og þrjú af þeirra börnum en þau eru frá Spóastöðum þar sem ég var í verknámi..  Krakkarnir og Valdi skottuðust um og skoðuðu dráttarvélarnar og svo eftir kaffi fóru Valdi og Linda í afmæli Hvítárbrúarinnar en ég gekk frá eftir kaffið og spjallaði við Björk vinkonu... 

Um kvöldið grilluðum við en við höfðum keypt grill í Húsasmiðjunni í bænum og Sunna og Valdi settu það saman. Sunna og Valdi settu líka saman kommóðu sem við keyptum undir sjónvarpið í svefnherberginu.. Ég held að Sunna ætti að íhuga að verða verkfræðingur þar sem hún hefur endalausa þolinmæði í að setja saman hluti og er ansi klár í því líka...

Bestu kveðjur frá Hvanneyri 

Ps. albúm koma seinna vegna tölvuklúðurs..


Rólega helgin sem var ekki róleg..

Við Valdi sáum fram á rólega verslunarmannahelgi en þá fóru að streyma að skólafélagar Valda frá Svíþjóð... Fyrst kom Raitis (Frá Lettlandi) á puttanum frá Suðurlandi. Valdi fór með hann rúnt um Skorradalinn. Á sunnudagsmorgninum þá hringdi síminn og þá voru það Magic og Kaiza frá Póllandi. Snilld, fínt að sameina þetta svona... Þegar þau mættu á svæðið þá var farið í langan bíltúr um Skorradalinn aftur og svo upp Borgarfjörðinn í Reykholt og að Deildartunguhver. Þegar hópurinn kom heim þá beið þeirra íslensk kjötsúpa og rabarbarapai. Fyrr um daginn þá höfðum við dobblað Snorra til að hafa barinn opinn svo við  skelltum okkur á Pöbbinn án þess að búast við miklu stuði á sunnudagskvöldi en viti menn.. Barinn var alveg smekkfullur af skemmtilegu fólki og mikil stemning..

Þrátt fyrir þreytu á mánudeginum þá var farið í bíltúr upp að Hreðavatni og þar var skoðuð myndlistarsýning í skóginum. Hópurinn lagði svo af stað á Suðurlandið undir kvöldið. Þetta var skemmtileg helgi en heldur fórum við þreytt inn í vinnuvikuna á þriðjudeginum.

Næstu helgi förum við á Clapton á föstudagskvöldinu en svo eru hátíðarhöld  hér á Hvanneyrií tilefni af því að það eru 90 ár síðan fyrsta dráttarvélin kom til landsins og auk þess er líka 80 ára afmæli Hvítárbrúarinnar. (Sjá: http://www.landbunadarsafn.is/frettir/nr/75099/)  Ég ætla að hafa eitthvað bakkelsi í gangi á laugardeginum svo endilega ef einhver vill flýja Gay Pride brjálæðið í bænum þá er þetta rétti staðurinn....

Nágrannakötturinn er búinn að skila sér.

María Guðbjörg... Nei Brjánn var ekki í MS.. veit reyndar ekki hvar Karen fór í menntaskóla...

Elín Björg... Hlakka til að sjá ykkur næsta laugardag..

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Sitt lítið af hverju..

Já það er orðið smá síðan við settum inn almennilega færslu..

Valdi hefur verið að vinna í garðinum en ég er enn á kafi í vinnunni hjá Lbhí.. Nú er farið að hitna undir mér því Áskell kemur úr fríi eftir helgi ég ég er ekki nálægt því að klára það sem ég ætlaði mér áður en hann kemur úr fríi.. Svo ég sit sveitt við þessa dagana.. Þetta bara gengur svo HÆGT...

Ég held ég telji bara upp albúmin sem ég setti inn og þá kemur fram það helsta sem á daga okkar hefur drifði sl. viku en krakkarnir voru hér síðustu helgi.

HESTFJALL: Í gærkvöldi fórum við skötuhjúin í kvöldgöngu upp á Hestfjall (221 m). Þó fjallið sé ekki hátt þá tókst okkur að vera tvo tíma að þessu þar sem ég var með nefið niðri í jörðinni og skoðaði steina, fléttur, skófir og plöntur.. Valda fannst ég ekki mjög skemmtilegur göngufélagi enda fór ég hægt yfir og skríkti svo mikið í lofthræðsluklettunum efst... En útsýnið var flott af toppnum og gönguferðin yndisleg í frábæru veðri. Það er eiginlega með ólíkindum að ég hafi ekki hundskast upp á fjallið fyrr en það er hér rétt fyrir ofan og ég hef búið hér í 5 ár.. Þannig að það var nú kominn tími á þetta. Ég hef reynt áður að fara á Hestfjallið en komst bara nokkra metra frá bílnum þar sem það var svo mikið um skemmtilegar skófir og plöntur að ég komst aldrei lengra.. 

HVALFJÖRÐUR: Á sunnudaginn fórum við í heimsókn til Davíðs og Guðbjargar í sumarbústaðinn á Hvalfjarðarströndinni. Anna Sólveig og Bjarki Steinar voru þarna líka. Tilgangurinn var að Valdi labbaði með þeim hjónum um lóðina og spáði í trén.. Ég skoðaði gróðurinn á meðan og fann td. tófugras og Bláklukku en Bláklukkan á að vera á Austurlandi en ekki hér.. Reyndar hef ég fundið hana í Borgarfirðinum en amma játaði þegar gengið var á hana að Bláklukkan hefði komið með úr ferðalagi austur í Skaftafell... Það var gaman að koma í bústaðinn en ég hef ekki komið þangað lengi, trjágróðurinn er orðinn svolítið magnaður þarna. Linda lék við Bjarka Steinar og hlaut stóran blautan koss fyrir þegar hún fór... Það fannst henni sætt..  

SKORRADALUR OG BAKKAKOT: Á laugardeginum fórum við með krakkana í góðan bíltúr í kringum Skorradalsvatnið.. Við stoppuðum í Vatnshornsskógi (Klausturskógi) því ég vildi finna ákveðna fléttutegund sem hefur bara fundist á birki í þessum skógi.. en það er undirtegund af flókakræðu en ekki fannst fléttan... En bíltúrinn í kringum vatnið var skemmtilegur og við stoppuðum í Bakkakoti sem er eyðibýli þar sem enn eru húsgögn og myndir uppi á veggjum.. Svolítið krípí... 

GÖNGUM SAMAN Á HVANNEYRI: Og eins og hefur komið fram þá er ég í gönguklúbbi í Borgarnesi sem ákvað að hittast á Hvanneyri sl. mánudagskvöld. Það var frábært veður og margar konur mættu 20-30 og eftir skemmtilega göngu niður á engjar og víðar þá var farið heim á Álfhólinn í kaffi en það var mjög gaman að fá allar kellurnar.. í heimsókn og mikil stemning. Valdi stóð sig eins og hetja og fyllti á kaffikönnur og hitaði te og undirbjó allt áður en við komum og brosti svo hinu blíðasta til kvennanna enda hefur hann ekki þorað öðru þar sem hann var eini karlmaðurinn á svæðinu og því í miklum minnihluta.. 

Síðustu daga höfum við verið að passa kött nágrananna en svo þegar þau komu heim frá Ítalíu í gær þá var kötturinn horfinn... HJÁLP VIÐ HÖFUM TÝNT KETTINUM.. Þannig að ef einhver hefur séð rauðan kött sem gegnir nafninu Tómas og jarmar frekar en mjálmar þá býr hann hér á hólnum... 

Bestu kveðjur úr óþolandi góðu veðri á Hvanneyri 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðrún og Valdi

Höfundur

Guðrún og Valdi
Guðrún og Valdi

Fyrir framan Álfhólinn á Hvanneyri..

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 294658

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband