Jólahlaðborð og jólatré

Jæjja ég náði að skila vísindaheimspekiritgerðinni á föstudagskvöldinu... Púff þá er það búið.. En það eru bara tvö verkefni eftir sem eru frekar stutt eða allavega eru þau áhugaverð og nytsamleg en það eru tvö verkefni í End note sem við Valdi þurfum að skila á morgun...

Helgin var ljúf en krakkarnir komu á föstudaginn og ég gerði alveg svakalega kjötsúpu og allir lágu afvelta í valnum á eftir.. Á laugardaginn þá fórum við upp í Skorradal að höggva jólatré en ég hafði unnið gjafabréf á jólatré í Kvenfélagsbingóinu. Veðrið var yndislegt, talsvert frost en milt og fallegt og Skorradalurinn var jólalegur í skammdegisbirtunni.  Krakkarnir og Valdi fundu stóra og fallega stafafuru sem nær alveg örugglega upp í loft í stofunni á Álfhólnum. 

Á laugardagskvöldinu þá fórum við Valdi í jólahlaðborð hjá Gerði á Flókagötunni en þar hittust systkinabörnin í móðurætt. Krakkarnir hans Valda fóru í mat til Afa Reynis. Jólahlaðborðið var frábært. Það var svo gaman að hitta alla og allir komu með eitthvað heimatilbúið á hlaðborðið. Flókagatan tók vel við svona fjölda en það voru 16 manns sem sátu til borðs. Hrein og klár snilld og ég ætla ekki að lýsa matnum sem var frábær: Hangikét, purusteik, gratíneraðar kartöflur, heimagert rúgbrauð, paté, frábær desert, síld, grafinn lax, heitreiktur sjóbirtingur.. Nammi, nammi, nammi nammmmmm... Þvílík sæla..

Í dag fórum við með börnin frekar snemma í bæinn þar sem þau þurftu að fara í afmæli. Við vorum að spá í að kíkja í Kringluna og komumst alla leið á bílastæðið þegar við bara keyrðum út aftur... Púff.. þvílík geðveiki.... Fórum bara í Bónus og keyptum okkur gott kjöt og höfðum ágætis sunnudagsmáltíð og svo bíða okkar ostar seinna í kvöld.. Næsheit í jólaljósunum.. 

Þrjú albúm 

Hvanneyri að morgni: Fallegar morgunmyndir frá Hvanneyri, útsýnið af Álfhólnum. 

Jólatré hoggið í Skorradal: Fallegt veður í Skorradal þegar við fórum í jólatrésferðina

Jólahlaðborð á Flókagötu: Myndir frá jólahlaðborðinu á Flókagötunni.. 


Jólaseríuhell..

Fínu jólaseríurnar okkar fuku af krókunum sínum eitt kvöldið þegar það kom mjög snöggur hvellur.... Valdi fór reyndar upp á þak einu sinni í vondu veðri og lagaði eitthvað en svo kom bara annar hvellur og það slokknaði á 20 perum og einhverjar brotnuðu... Snökt, snökt...  Valdi náði svo þegar það var hlýtt og gott veður að fara upp með varaperur og skipta um og loka krókunum en málið var að við höfðum fengið leiðbeiningar með þetta að loka krónunum en við svindluðum... Blush.. Og það kom svona heiftarlega í hausinn á okkur..

Og já.. það verða sko settar inn myndir af Álfhólnum með jólaljósunum um leið og allar seríurnar verða komnar upp í alla glugga... Valdi ætlar líka eitthvað að setja af seríum úti en við eigum bara engin tré.....

Valdi hefur verið að grautast í ritgerðinni sinni þessa viku ásamt því að bjarga jólaseríunum en ég hef verið að vinna í vísindaheimspekiritgerðinni minni... Ég verð að segja að það er eiginlega sárt að gera þessa ritgerð... Mig verkar í hausinn.... Ég er komin með 1111 orð en ég þarf að skrifa um það bil 2500 orð.... Ég á að skila á morgun... púff.. ég vona að það náist..

Ég tók mér pásu í ritgerðarskrifunum áðan og við Valdi settum upp greni og jólaljós hér inni og svo hengdum við upp spjótin mín og sagirnar hans Valda í stofunni... Og svo eigum við eftir að hengja upp einhverja hluti aðallega frá Gvatemala en það er farið að vanta svolítið veggpláss fyrir allt þetta drasl.... Valdi er eiginlega alveg tilbúinn til að skila mér þessa stundina.... InLove Því vesenið er svo mikið á mér.....

Bestu kveðjur úr svokölluðu skítaveðri á Hvanneyri


Krukkurnar loksins komnar..

Það eru nú nokkrir dagar síðan við höfum bloggað síðast en það er búið að vera mikið að gera. Ég hef verið á kafi í ritgerðinni minni um stofnun Bændaskólans á Hvanneyri og Valdi hefur verið í ýmsu stússi. Ég kláraði ritgerðina mína í fyrradag sem betur fer. Þá er bara ein ritgerð og tvö verkefni eftir til jóla.. Púff.. Sl. föstudag var síðasti tíminn í Nytjajurtum og Jarðvegsfræði sem ég er að kenna.. Ég bauð upp á byggbrauð og rúgbrauð úr byggi og heilhveiti frá Þorvaldseyri... svo var auðvitað kaffi og álegg.. Þetta lukkaðist ágætlega og það var gaman að enda kennsluna á léttu nótunum en ég þrusaði yfir þeim fyrirlesturinn minn um grasnytjarnar...

Valdi var mjög duglegur í gær og festi upp 120 króka á þakið og setti svo útiseríuna upp.. Húsið er svakalega flott og jólalegt en við erum með ljós allan hringinn.. Ég á eftir að setja seríur í nokkra glugga og þá verður þetta örugglega algert óverdós... úpps... Hins vegar losnuðu nokkur ljós og ein pera brotnaði í skítaveðri í nótt..

Í gærkvöldi fengum við okkur kjötsúpu en Valdi átti nú skilið einhvern kjarngóðan mat eftir að hafa verði út allan daginn í 8 stiga frosti að setja upp jólaseríur. Seinna um kvöldið kíktum við til Höllu Kjartans en þar voru Vaggi og Lilja í heimsókn og fleiri. Lilja hafði komið með krukkurnar mínar frá Svíþjóð sem ég hef beðið eftir í marga mánuði úr brennslu frá Vallåkra. Ég verð bara að segja að þær komu vel út..  Við skelltum okkur stutt á barinn en þar var margt um manninn og gaman að hitta fólk... 

Í morgun fór Valdi með Gísla upp í Skorradal að höggva jólatré en ég fór stutt í Borgarnesið en sit núna sveitt við að yfirfara síðustu verkefni nemenda minna en lokaprófið þeirra er á mánudaginn.. Ég er spennt að sjá hvernig það gengur.. Og verð líka ósköp glöð þegar kennslan er frá..

Því miður er bara rok og rigning á Hvanneyri núna en það hefur verið einstaklega fallegt og milt frostveður síðustu daga... Í dag er jólamarkaður Ullarselsins og Kompudagar á barnum en ég ætla klárlega að kíkja þangað.. En ég heiti því á hverju ári að gera nú eitthvað handverk til að selja á markaðnum að ári.... Það gerist einhvern tíman... 

Ég læt fylgja með fjögur stutt albúm.

Skrýtinn hundur: Krakkarnir komu með hundinn sinn hana Freyju síðustu helgi.. Krútt hundur... en stórskrýtinn.

Markaður, jólaseríur og engjar: Þarna eru myndir frá jólamarkaðinum á Bjarteyjarsandi, og þegar Valdi var að hengja upp jólaseríur á húsið og líka frá gönguferð okkar Káts niður á engjar í gær... 

Jafnaskarðsskógur er frá því við fórum upp í Jafnaskarðsskóg með börnin síðustu helgi..  

Vallåkra krukkurnar, myndir af krukkunum mínum frá Svíþjóð..  

 


Kvenfélagsbingó og hundur með strípur

Á fimmtudagskvöld fórum við í Jólabingó hjá Kvenfélaginu 19. júní sem er starfandi hér. Það var svo gaman. Mætingin var frábær og þetta var haldið hér í Matsalnum hjá Lbhí. Ég held að undir lokin hafi öll spjöld selst upp.. Ég fékk BINGÓ.. einu sinni en ég sendi Valda upp að sækja vinninginn.. Hann þurfti að draga en hann fékk hærra spilið.. Við unnum, JÓLATRÉ... Já... skógræktarkallinn hann Valdi sem hefur nu yfirleitt haft nægan aðgang að jólatrjám vann gjafabréf frá Skógrækt ríkisins fyrir jólatré.. Hrein snilld.. Síðan fengum við UMSB íþróttagalla, bók, konfekt og fleira dót.. Þetta var gaman...

Við höfum ekkert verið í húsinu þessa vikuna en Valdi fékk eitthvað tak í öxlina og hefur ekki getað unnið mikið nema í tölvunni.. Guðni smiður er að gera gluggana þessa dagana svo eitthvað er að mjakast. Síðustu helgi vorum við hins vegar dugleg og máluðum mikið og Valdi gerði mikið inni á baði. Hundinum honum Káti tókst að labba fyrst öðru megin í málaðan dyrakarm og svo hinumegin í næstu ferð svo nú gegnur hann um með strípur á feldinum báðu megin....  Við hreinsuðum líka út úr geymslunni fyrir aftan húsið en þar var sko DRASL frá öllum leigjendum og líka frá mér.. NÆR ÖLLU VAR HENT...

Valdi hefur unnið í mastersritgerðinni þessa vikuna en ég fór til Rvk snemma á þriðjudaginn og sat á Þjóðskjalasafninu til að finna heimildir í ritgerðina mína í skjalakúrsinum.. það er svo gaman en það fannst samt lítið. Ég fann hins vegar fullt af frábærum skjölum á Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar og ég hef líka fengið góð skjöl héðan frá skólanum svo þetta mjakast. Keramiktíminn í Rvk var skemmtilegur að vanda en á miðvikudagsmorgni flutti ég smá tölu í Skjalakúrsinum um ritgerðina.. ég held það hafi gengið vel.

Það stefnir í yndislega rólega helgi en ég er um það bil að hætta að fara af taugum yfir álagi. Kennslan er svo til búin, bara upprifjun og yfirferð á verkefnum eftir. Ég þarf að semja prófið um helgina og síðasti tíminn á föstudaginn verður bara léttur hjá okkur með veitingum. Þessi kennsla hefur verið svo skemmtileg og ég bara vona að krakkarnir hafi lært eitthvað.. Ég veit ég hef það..  

Ég á reyndar eftir að skila tveim ritgerðum en það kemur.. Veðrið er dásamlegt á Hvanneyri núna. Krakkarnir eru hér með Freyju (litli krúttuhundurinn þeirra (sja albúmið Latur smiður)..  Ég bakaði rúgbrauð í nótt og ætla að gera hjónabandssælu á eftir. Freyja byrjaði að ískra (ég er ekki að grínast en hundurinn ískrar þegar hann suðar)... klukkan átta í morgun og ég þorði ekki annað en að fara með hana út og Kát.. Við tókum létt labb hér í morgunkyrrðinni sem var dásamlegt... 

3 ný albúm.

Latur smiður - Skápurinn sem er gefins úr Bókfellinu og Valdi í baðkarinu

Meira keramik - Stutt úr keramikinu

Skorradalur - Úr gönguferð Valda og Káts í Skorradalin sl. sunnudag.

Takk fyrir kommentin á teppið...

Bestu kveðjur frá Hvanneyri.  


Framkvæmdir og barnateppi

Framkvæmdirnar í Bókfellinu ganga mjög vel enda er ég með frábæran smið í verkinu sem býr við hliðina á mér uppi í Dalnum. Hins vegar hefur Valdi staðið sig alveg meiriháttar vel en ég er alveg að fatta það enn og einu sinni hvað  ég er vel gift en Valdi hefur verið flesta daga í vikunni einn í húsinu að mála og spasla og framkvæma.. Ég  fór með honum í dag og málaði og það er svo gaman að sjá húsið taka á sig mynd aftur.  Við málum bara hvítt og aftur hvítt... svo nú birtir yfir öllu. Ég verð bara að segja það enn og einu sinni að ég elska þetta hús.. Það er svo kósí og hlýlegt og sætt þó lítið sé.. Hlýtt og gott.. Það eru líka jólaljós á húsinu sem leigjendurnir skildu eftir svo það er ennþá meira kósí... Nú vantar bara leigjendur í fína húsið mitt..

Í vikunni fórum við Valdi í heimsókn til Tobbu vinkonu okkar sem var að eignast dóttur með Todda manninum sínum.. Sú litla er svo falleg og yndisleg að það hálfa væri nóg... En málið var að ég hafði um leið og ég frétti af óléttunni ákveðið að sú litla fengi barnateppi sem ég var að prjóna þá... Ég hafði upphaflega byrjað að prjóna það fyrir annað barn en svo tók teppið svo mikinn tíma og ég uppgötvaði að þetta var flókinn prjónaskapur hjá mér... Ég ákvað svo að prjóna bara teppið þó upphaflega barnið væri fætt og komið á leikskóla...  Það var augljós ákvörðun að Tobba fengi teppið þegar ég heyrði að hún ætti von á sér.. En teppið tók 180-200 klst í vinnu... Enda verð ég að segja að það er óskaplega fallegt... Tobba var himinlifandi með teppið en sú litla launaði fyrir sig með því að gubba hraustlega yfir teppið en hún veit klárlega að þetta er ekki skrautteppi heldur á að nota það... Svo nú er búið að vígja það almennilega... Myndir af teppinu má sjá í albúminu Barnateppi. 

Upphaflega barnið sem átti að fá teppið er komið af ungbarnateppisaldri en ég ætla að byrja strax að prjóna nýtt teppi í þeirri von að einhvern tíman fjölgi á því heimili aftur...

Tvö ný albúm. Barnateppi og bókfell og rúgbrauð..

Bestu kveðjur af Hvanneyri 


Heimsins besta rúgbrauð bakað yfir nótt...

Það er nú meira skítaveðrið úti núna... Valdi var að koma úr Bókfellinu þar sem hann var að vinna og ég var að koma úr keramiktíma... Það æxlaðist þannig að við fórum á tveim bílum... Sem á endanum kom í ljós að var tóm tjara þar sem ég ákvað að skrópa í HÍ í fyrramálið.. En það er bara svo brjálað að gera hjá mér..

Helgin var róleg hjá okkur. Krakkarnir voru hér og við bökuðum súkkulaðiköku og gerðum rúgbrauð.. Hrein snilld... Við keyptum kökublað Gestgjafans og þar var þessi fína uppskrift sem var einföld.. "setjið allt saman í skál og hrærið"... ég elska svona uppskriftir.... Síðan var deigið sett í mjólkurfernur og inn í ofn í 9 klst.... Næs.. Ég vaknaði kl. 7:15 til að taka brauðið út en það var OFBOÐSLEGA GOTT....  Linda var mjög dugleg að prjóna en hún bæði fitjaði upp og prjónaði sjálf.. svo jafnt og flott... Eldri krakkarnir og Valdi spiluðu á meðan.

Á mánudeginum fórum við í Bókfellið og máluðum og spösluðum.. Húsið lítur mun betur út núna en það gerði. Við komumst líka að því að jólaljósin sem síðustu leigjendur höfðu sett upp svínvirkuðu..  En ég ákvað í einhverju bíaríi... að stinga þeim í samband og það varð ljós og mikið ljós.... Seríurnar náðu allan hringinn um húsið og um viðbygginguna... bara nokkuð flott..

Valdi fór svo í dag að vinna meira í húsinu á meðan ég fór í bæinn í stúss og Keramiktíma..

Eitthvað virðast tilvonandi leigjendur vera að klikka en unga parið sem skoðaði og hafði mikinn áhuga hefur ekki hringt eftir að ég tilkynnti þeim að þau gætu fengið þetta... Hinn aðilinn vildi bara kaupa þetta fyrir slikk og reyndi að prútta leiguna (kom keyrandi á fínum Land Cruser...).... Hann falaðist ekki eftir húsinu.... Svo líklega erum við enn leigjendalaus... En ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því í bili..

Bestu kveðjur úr roki og rigningu á Hvanneyri


Hvernig velur maður leigjendur?

Jæjja.. bissí vika að baki eins og alltaf...

Valdi er búinn að vera lasinn og hefur ekki setið við mastersverkefnið eins mikið og planið var. Hann hóstar eins og hann sé með berkla.. En ég hef verið að afvegleiða hann og fá hjálp við ýmsa hluti í tengslum við húsið í dalnum. Bæjarferðir og vesen... Kennslan gengur vel en ég var mjög montin af árangri nemenda minna á áfangaprófi 2... Klárir krakkar... Við erum líka að ljúka verkefninu "Fylgst með grasi" en nemendurnir fengu fræ af grasaætt og voru að rækta og áttu að segja mér hvaða tegund þetta var í dag  og skila skýrslu seinna en okkur tókst að fá flest grösin til að skríða nema vallarfoxgras og túnvingul. Byggið var svakalega flott og Hafrarnir líka og meira að segja sumarhveitið var skriðið...

Fyrir nokkru auglýsti ég húsið í dalnum á mbl.is. Viðbrögðin voru dræm, nokkrar hringingar en í dag sýndi ég húsið tveim aðilum mjög áhugasömum... Ég hef fengið lokasvar frá öðru parinu sem er mjög spennt fyrir húsinu en hitt parið er að hugsa sig um...  Ég þarf svo að skoða meðmælendur og taka ákvörðun um hver fær húsið ef þau vilja það bæði. Ömurlegt ef ég þarf að velja á milli því mér líst vel á bæði pörin. Ég hef tvisvar fengið meðmælendur með leigjendum og þa hefur klikkað í bæði skiptin.. Eini leigjandinn sem ég bað ekki um meðmæli með og þekkti EKKERT... Var besti leigjandinn....  Ég tek alveg út fyrir þetta vesen að vera að sýna húsið og horfa gagnrýnum augum á fólk eins og það sé glæpamenn... Ég er orðin svo hvekkt yfir leigjendum en sá síðasti  borgaði alltaf 1. hvers mánaðar til að byrja með.. En ég hugsaði samt.... "það er eitthvað að".... aðrir sem borguðu seint og ég hugsaði... "það er eitthvað að".... Aldrei ánægð... enda hef ég haft 3 leiguaðila í dalnum og tveir hafa skilið illa við og stungið af frá skuldum.... Svo ég er alveg skíthrædd við þetta...

En þetta lítur vel út núna.. mér líst vel á fólkið og framkvæmdirnar stefna í rétta átt... Mig vantar bara 24 tíma í viðbót í hvern sólarhring til að klára framkvæmdir, kennslu og ritgerðirnar mínar..

Við fórum og sóttum krakkana eftir hússýninguna og þegar við komum heim þá biðu okkar tveir kindaskrokkar niðurskornir hér fyrir utan en við keyptum af Hestbúinu tvo skrokka... Þá þurfti að taka til í frystinum og Valdi og Jakob gerðu það með snilldarbrag... Kjötið leit rosalega vel út, þykk og flott læri og hryggir... Og nú á sko að gera rúllupylsu úr slögunum..

Stefnir í rólega og næs helgi með börnunum en ég ætla ekki að spá í vinnuna fyrr en klukkan 15.00 á sunnudag.. Ég er bara búin að slökkva á þeim hluta heilans fyrir helgina.. (það er erfitt fyrir mig)....

Bestu kveðjur


Brösug baðkarskaup...

Sl. laugardag fórum við Valdi til byggða til að kaupa ýmislegt sem vantaði fyrir framkvæmdir í Bókfellinu. Við fórum með kerruna og beint í Húsasmiðjuna.... En þá var ekkert til sem okkur vantaði en við þurftum að kaupa baðkar sem er 160 cm að lengd en þau eru nær alltaf 170... Afgreiðslumennirnir neituðu að selja okkur sýnisbaðkarið.... Arrgggggg.... Og bara til að toppa það þá sögðu þeir að síðasta baðkarið á landinu væri í Borgarnesinu... Arrggggg.... Við keyrðum nefnilega úr Borgarnesinu með tóma kerru því við nenntum ekki að þvælast um með baðkar milli landshluta.....

Okkur vantaði svo 12 mm nódaðar vatnsheldar spónaplötur en þær voru heldur ekki til.... Arrrgggg...

Ferðin endaði í allskonar stússi í staðin td. Elkó þar sem ég keypti "Töfrasprota" svona einhverja mixergræju til að laga heilsusjeika eins og Gerður systir gerir... Ég keypti líka í þrefaldan Vilhjálms Vilhjálmssonar geisladisk.

Við náðum hins vegar hádegismat með Pabba hans Valda og Sigríði í Árbæjum sem var gaman.

Valdi var enn lasinn á sunnudeginum svo hann tók því rólega en ég fór yfir próf og undirbjó kennsluefni. Á mánudeginum eftir kennslu fórum við svo í Borgarnesið en við ætluðum sko að grípa þetta eina baðkar sem eftir var á landinu en NEI.. það var ekki til... En ég sýndi alveg fádæma ákveðni og fékk með klækjum að kaupa sýnisbaðkarið...... sjúkkitt..... 24 þúsund krónur, líklega enn á gamla verðinu en öll önnur baðkör kosta marga tugi..... Nóduðu spónaplöturnar voru hins vegar ekki til... En baðkarið trónir á kerrunni hér úti á plani þar til næsta ferð verður í bæinn....

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Lasleiki og flensuskítur...

Jæjja þá er Valdi kominn með flensuna sem ég er búin að hanga með í 3 vikur.. Ég er reyndar orðin hress en maður dettur úr öllum takti í hreyfingu og matarræði á svona flensuskít svo ég er að reyna að ná taktinum aftur en núna er Valdi er með hita og beinverki og er búinn að vera nánast rúmliggjandi í dag.. Svo dröslast hann framúr og þykist ætla að vinna í tölvunni en það virkar ekki...

Ég fór suður á þriðjudag og kom við á Héraðsskjalasafninu á Akranesi til að finna heimildir um Ömmu og Afa fyrir verkefni sem ég er að gera.. Það gekk brösuglega en konan þar lofaði að finna einn kassa frá skipulagsnefnd fyrir mig frá 1936 ef ég kæmi daginn eftir.... Ég heimsótti Ömmu sem var nokkuð hress miðað við að hún var á spítala í síðustu viku.. En ég held að það hljóti að vera staðreynd að sjóninni hrakar hjá henni þar sem hún sagði mér að núna væri holdafar mitt orðið fínt og ég mætti alls ekki grennast mikið meir.... Hehe... (bara svona um 30 kg eða svoTounge)....  

Ég fór svo í keramikið um um kvöldið en það var ágætt en við erum byrjaðar á rennibekknum en ég er eiginlega alveg búin að missa áhugann á demantinum mínum sem er svona form-hirsla... Hann bara talar ekki til mín lengur.. En það er gaman að renna..

Um kvöldið fylgdumst við Gerður með Obama-kosningunum en ég entist til eitt um nóttina en ég skildi lítið í þessu hjá CNN, allt of lítil grafík og allt of mikið af Spám og ég ruglaði saman alvöru tölum og spám og bara missti þráðinn.... Ég hins vegar vaknaði fimm um nóttina og fór á netið og  gat svo haldið áfram að sofa alveg róleg þegar ég heyrði að Obama hefði unnið... 

Í Skjalasafnakúrsinum mínum hjá HÍ var farið í Héraðsskjalasafn Reykjavíkur sem var mjög gaman... Síðan vann ég hópverkefni og fór svo á Þjóðskjalasafnið til að halda áfram að finna heimildir... Það var gaman.. ég fann afa í gömlum kirkjubókum frá 1896 og svo frvs.. Þaðan fór ég á Akranes í héraðsskjalasafnið þar og kassinn var fundinn og ég fann gamlar fundargerðir frá 1936 þar sem Afi fékk leyfi fyrir að byggja húsið á Skólabrautinni ( sem ég held að hafi heitað Skírnisgata þá).. Snilld.. 

Þungu fargi var svo af mér létt í gær þegar ég náði að klára að útbúa vinnubók fyrir nemendurna en það stóð til að klára það fyrir löngu... Nú var þetta sent út til fjarnema og dreift meðal staðarnema í dag.. 

Valdi lasni-púki er að horfa á sjónvarpið núna og ég held ég bara setjist hjá honum og prjóni svolítið..

Róleg helgi framundan með hugsanlegri Rvk ferð til að vinna í húsinu og kaupa baðkar..

Nýtt albúm: Keramiktími

Bestu kveðjur frá Hvanneyri 


Basar á Dvalarheimilinu í Borgarnesi

Þetta hefur verið hálfgerð letihelgi á Álfhólnum. Í gær voru börnin að spila Actionery með pabba sínum inni í stofu á meðan ég undirbjó kennslu inni á skrifstofu. Síðdegis í gær fórum við svo á opið hús á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi en þar voru kaffiveitingar og svo Basar. Mig vantaði vettlinga þess vegna vildi ég kíkja þarna. Basarinn var yndislegur, fullt af skemmtilegu dóti en heldur þótti mér litagleðin mikil hjá gamla fólkinu. Fyrst voru hlutirnir til sýnis og svo til sölu eftir fjögur svo við vorum búin að standa þarna í dágóða stund þegar loksins mátti versla. Ég náði í vettlingana mína og rölti svo í rólegheitunum til að ná mér í aðra. Ég kunni ekki við að hamstra fleiri enda voru þeir mjög ódýrir.. Hins vegar sá ég eina konu rífa upp 8 stykki af barna fingravettlingum.. Hún tók bara allt "lottið"... Ég var hálf hvumsa yfir slíkri hegðun... Að hamstra svona vörurnar... Þannig að Linda fékk ekki vettlinga eins og ég ætlaði mér.. En hún fékk í staðinn haus sem hún á að vökva og upp úr kemur gras... Hún segir að þetta sé kærastinn sinn...  Ég keypti líka nokkur knippi af sláturnælum... Eftir basarinn fórum við í kaffiveitingarnar sem voru eins og mögnuð fermingarveisla.. Ég át svo hrapalega yfir mig af brauðtertu, rice crispies köku, pönnukökum, heitum réttum og svo frvs...  að ég hafði varla lyst á kvöldmatnum... Held ég sé ennþá södd...

Um kvöldið var svo prjónað og horft á DVD en myndin sem við völdum í sameiningu í Bónus var eiginlega ekkert sérstaklega skemmtileg... En slapp til.... Ég fór í stutta morgungöngu með Kát í morgun en það er svo yndislegt að vera snemma á ferðinni í kyrrðinni en við hittum rjúpurnar og sáum einn sprækan trimmara... Í dag er ég að vinna inni á skrifstofu en við stefnum á sund seinna í dag, hamborgara í kvöld og svo heimferð í Öndverðarnesið með börnin..

Bestu kveðjur frá Álfhólnum


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðrún og Valdi

Höfundur

Guðrún og Valdi
Guðrún og Valdi

Fyrir framan Álfhólinn á Hvanneyri..

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 294647

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband