25.5.2009 | 12:42
Banvænar harðsperrur
Þá eru sumarverkin hafin en ég fór með Valda um daginn að færa til aspir fyrir Borgarbyggð. Það var þvílíkt endemis puð en ofboðslega gaman. Hitinn var reyndar of mikill og lognið þannig að flugufjandarnir mættu á svæðið og bitu mig í spað en létu Valda í friði. Ég var bækluð af harðspérrum eftir þessa reynslu en þetta var hressandi. Það gekk á ýmsu hjá okkur en Valdi datt út í skurð og braut líka tvær skóflur..
Næsta verkefni verður líklega gróðursetning uppi í Þverárhlíð og vonandi kemst ég í það með Valda en mér finnst mjög hressandi að vinna úti og ágætt að hreyfa á mér rassg... eftir setu við skrifborð síðustu árin...
Ég hef verið með lyklavöld á Landbúnaðarsafni Íslands undanfarna daga og ég hef tekið á móti hópum og verið til taks ef einhver vill komast inn. Mér finnst mjög gaman að vera þar og gæda og spjalla við fólk en þangað hefur komið td. leikskólahópur úr Mosó og í gærkvöldi komu 20 Færeyingar en það var frábært að spjalla við þau. Ég á mikið eftir að læra um dráttarvélar og landbúnaðartæki síðustu aldar en ég er svolítið mikið "lost in space" eins og er en ég veit núna muninn á Farmall Cub og Farmall A og einhverjum Fergusson tegundum. Um daginn kom hópur eldri borgara og þau þekkja öll þessi tæki og þessar vélar. Þá geng ég með þeim og hlusta á þeirra sögur og minningar úr sveitinni.. Það er dásamlegt. Ég var líka í Ullarselinu þegar Eldri borgararnir komu en það er náttúrulega snilld ef ég get tekið á móti hópum í Ullarselið og svo í Búvélasafninu á einu bretti.
Maja og Dóri voru í gistingu hjá okkur um helgina og við fórum auðvitað með þau í Landbúnaðarsafnið og í Fjósið. Annars var helgin bara róleg hjá okkur en ég var svolítið bundin í safninu báða dagana.
Ég er komin með nýjan lögfræðing í landamerkjadeilumálið mitt í Mosfellsdalnum. Síðustu tveir hafa horfið til annarra starfa.. Í alvöru þá hafa þeir báðir hætt að starfa sem lögfræðingar... Veit ekki hvort málið sé svona hrikalega leiðinlegt að menn bara missa áhugann á sínu starfi eða hvað... en ég er mjög spennt yfir þessum nýja því mér líst vel á hann og nú bara drífum við í þessu en þetta mál hefur verið að gaufast á milli lögfræðinga síðan 2005 og í raun hefur allt þetta mál verið í deiglunni síðan haustið 2000. Púff.. ÞOLINMÆÐI er það sem þarf í svona málum... Nýji lögfræðingurinn er á voðalega fínni og stórri lögfræðistofu og ég ákvað bara að vera ekkert að spyrja hvað hann tæki á tímann... Ef hann virkar þá er ég sátt...
Kátur greyið hefur verið lasinn í maganum undanfarið... Án nánari lýsinga þá hefur það kostað miklar skúringar hér upp um alla veggi og gólf og hálfan brúsa af Ajax... Hann er að verða hressari núna greyið en hann hefur borið sig aumlega... Þetta gerist líklega þegar maður notar hundinn fyrir lífræna sorpið.. Úpps......
Bestu kveðjur frá Hvanneyri
Um bloggið
Guðrún og Valdi
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.