Færsluflokkur: Bloggar

Sauðamessa 2008

Laugardagurinn hófst á morgungöngu hjá mér, Lindu, Valda og Kát. Fyrst var stoppað hér fyrir utan á Álfhólnum til að dáðst að umhverfinu en það var stillt, bjart og snjór.. Alveg dásamlega fallegt um að litast. Síðan var rölt um þorpið og við enduðum í morgunkaffi hjá Siggu og Hauki þannig að morgunröltið okkar tók eiginlega 2 tíma allt í allt..

Þá var brunað í Borgarnesið til að fara á Sauðamessuna. Ég var meira að segja búin að troða mér í lopapeysu í tilefni dagsins og ég tók þá vafasömu ákvörðun að fara í "gúmmítúttunum" mínum í lopasokkum til að vera ennþá sauðslegri... Það hafði þau áhrif að tærnar á mér frusu af... Ég hélt ég væri að missa þær hverja á fætur annarri... En þær þiðnuðu þó þegar leið á bílferðina aftur heim..

En Sauðamessan var hreint út sagt frábær.. Við vorum á svæðinu frá upphafi til enda. Við horfðum á Danshópinn Sporið sýna þjóðdansa og við sáum fjárhundasýningu sem endaði reyndar með að rollurnar hlupu stjórnlaust inn í áhorfendahópinn... Við fylgdumst með Hvanndalsbræðrum sem eru náttúrulega alltaf hrein snilld og svo fórum við á handverksmarkað. Linda tók þátt í tombólu og vann rúgbrauð og kæfu sem var dásamlega bragðgott þegar heim var komið. Hápunktur skemmtiatriðanna var reyndar þegar Björgvin Franz kom, sá og sigraði en ég tók alveg bakföll af hlátri yfir stælingu hans á Jónsa í Singing Bee og Eyvöru Pálsdóttur. Hann fór alveg á kostum og náði að skemmta börnum og fullorðnum á einu bretti.. Hrein snilld... Síðan var keppni í smalahrópum og umhverfisverðlaun veitt..  Sauðamessan var hreint út sagt frábær í frábæru veðri og þrátt fyrir verulega frosnar tær þá gat maður bara ekki farið heim fyrr en allt var búið. Ég held að Linda hafi líka skemmt sér ljómandi vel en hún virðist vera einlægur aðdáandi Björgvins Franz og beið allan daginn eftir að sjá hann...

Tvö ný albúm: Morgunstund á Hvanneyri er frá yndislegu morgunrölti okkar í morgun og svo Sauðamessa 2008 er stórt albúm frá Sauðamessu.

Hér má líka sjá stuttan bút frá Sauðamessu af Hvanndalsbræðrum í Skallagrímsgarði.  


Jólasnjór á Hvanneyri

Ó það var svo fallegt í morgun þegar ég gekk frá Álfhólnum og niður í Gamla Skóla til að kenna í bændadeildinni.. upp úr hálf átta...  Yndislegt... Fullkomlega kyrrt og fallegt.. Smá ískurhljóð í fjarska frá blesgæsinni en það er viðeigandi á þessum árstíma... Núna sit ég við skrifborðið mitt í vinnuherberginu og ég held ég hljóti að hafa fallegasta útsýnið á landinu en ég sé yfir þorpið í ljósaskiptunum, yfir Nýja Skóla (Ásgarð) Grunnskólann, Nemendagarðana, Hafnarfjallið, Skeljabrekkufjall, Hvítána, Borgarfjarðarbrúna og svo frvs. Og snjór yfir öllu og kyrrð.. Yndislegt..  Í morgun voru börn að leik á sleða í garðinum hjá okkur... Dásamlegt..

Jæjja að allri væmni slepptri þá er ég alveg útkeyrð eftir vikuna... Ég er bara alveg búin á því. Ég átti að vera í fertugsafmæli hjá Steinunni systur Valda í gær en ég varð að undirbúa kennslu og vinna heimavinnu fyrir Vísindaheimspekina. Í dag átti ég að vera á Réttó Rejúníon í bænum en það var ekki hægt að kaupa nagladekk í Borgarnesi svo ég treysti mér ekki að keyra í bæinn.. Eða var ég bara of þreytt???

Valdi fór að sækja Lindu en Eldri börnin koma ekki sem er spælandi því það er Sauðamessa um helgina en jæjja Linda fær bara að vera einkabarn um helgina og verður dekruð eftir því.... Jakob á líka afmæli á sunnudaginn en þá verður hann 16 ára...

Ég ákvað að slaka á í kvöld og fór niður í Ullarsel og kembdi svolitla ull sem ég ætla að spinna á eftir.. Ég þarf reyndar að vinna um helgina kennslu efni en ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því strax..

Vikan var fín, keramiktíminn var frábær á þriðjudaginn og Valdi hefur unnið í Skorradalnum við mælingar en það gengur hægt. Valdi tók upp kartöflur í gær en ég held við höfum fengið allt í allt 50 kg. sem er snilld..

Tvö ný albúm..

Ullarvinnsla: Myndir frá Ullarvinnslunámskeiðinu á Hvanneyri þar sem ég var að læra að spinna.

Kartöflur og sveppur : Valdi að taka upp kartöflur og með stóran svepp úr Skorradalnum. 

Bestu kveðjur frá Hvanneyri 

 


Rokkað alla helgina...

Kátur er orðinn fullhress og hleypur út um allt með Lusku vinkonu sinni sem er hér í pössun. Helgin var róleg en Valdi var að skera út á sunnudeginum og horfa á fótbolta á pöbbnum. Ég var hins vegar á ullarvinnslunámskeiði frá kl. 13.00 á föstudegi til 17:00 og frá 9- 17:00 bæði laugardag og sunnudag.. Kvöldunum varði ég svo í kennsluundirbúning... Það skal engan undra að ég var mjög þreytt í vinnunni í dag...  Námskeiðið var virkilega skemmtilegt en ég kann núna að spinna og ég fékk rokk með mér heim til að æfa mig að "rokka" eins og Valdi segir....

Veðrið var gott hér á Hvanneyri í dag og við Valdi fórum í göngu með hundana í góða veðrinu. Í kvöld ætluðum við með Kát til dýralæknis niður í Borgarnes í bólusetningu en það náðist ekki í dýralækninn svo við bara fengum okkur pizzu í staðin..

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Kátur er hressari

Jæjja hann Kátur er farinn að skakklappast um meira en áður... Hann borðar líka betur og stígur í allar fætur... Líklega hafa sterarnir haft einhver áhrif...  Vona bara að það endist en svona torkennileg eymsl í liðum án meiðsla boða ekki gott...

Ég fór í bæinn í gær og fór í fyrsta keramiktímann minn í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Um leið og ég gekk inn í Myndlistarskólann þá fattaði ég að ég var komin á "Hildar territory"... Allir horfðu undarlega á mig... Og margir sögðu... Ó þú hlýtur að vera systir Hildar.... Mér fannst ég hálf asnaleg að vera að seilast inn á listasviðið þar sem Hildur systir trónir með sín Sjónlistarverðlaun og einkasýningar... "Þú hlýtur að hafa einhver listagen líka".... hummmmm... nú finnst mér eins og ég þurfi að gera rosalega vel... En ég vil nefnilega meina að Hildur hafi þurrausið mig af listagenum og skilið eftir sveitagen í staðin.... Hún fékk allan skammtinn sem í boði var.... 

En tíminn var hreint út sagt frábær. Við lærum 50% handmótun og 50% rennslu. Ég hefði viljað fara á bara rennslunámskeið en það var á óheppilegum dögum svo ég fór á þetta í staðin. Og óskaplega hefur maður nú gott af því að læra aðrar aðferðir... Við byrjuðum með leirkúlu og breyttum þeim í skálar í höndunum og svo notuðum við kökukefli og skárum út fleti til að setja saman sem box... Hlakka til að fara aftur í næstu viku og halda áfram..

Ég gisti hjá Gerði í yndislegu nýju íbúðinni hennar á Flókagötunni og fór svo í HÍ í Skjalasafna kúrsinn minn... Það var eiginlega pínulítið boring í dag.. En ég var hálf athyglislaus enda kom í ljósa að ég var með hálfgerða flensu...

Valdi var duglegur í tölvlunni í dag en hann er búinn að setja End note inn í tölvuna sína og er að safna greinum og heimildum þar inn fyrir mastersritgerðina...  Hann var líka búinn að ryksuga og byrjaður að elda þegar ég kom heim....

Ég ætla ekki að lýsa því hvað það er gott að hafa skrifstofu uppi í skóla. Núna er ég búin að fara með allt vinnudraslið mitt þangað og þó ég vildi þá gæti ég varla unnið mikið hér heima án þess.. Skrifstofan er svo björt og góð og friðurinn er alger... Nú slaka ég líka betur á þegar ég er heima.

Ég hef verið á biðlista fyrir námskeiðinu Ullariðn sem er valkúrs í bændadeild.... Og það losnaði pláss og ég kemst inn... Þetta er næstu helgi og svo eina helgi í viðbót... (langar helgar Fös til Sunn)  Ég hlakka ekkert smá til en þá fáum við að læra að spinna.... Ég er að reyna að "hinta" við Valda um að það sé góð hugmynd að hann gefi mér rokk í jólagjöf... HINT HINT VALDI.... Hann er ekki að ná þessu....

Bestu kveðjur frá Hvanneyri (og blesgæsunum...)


Halti hundurinn Kátur

Síðasta helgi var ljúf... Krakkarnir voru hérna en veðrið var frekar leiðinlegt. Valdi og Jakob gegnu samt aðeins frá hér fyrir utan og settu hjólin inn og kamínuna og gengu frá fyrir veturinn.  Við Linda bökuðum og Sunna lærði undir próf... Eftir sundferð og kvöldmat á sunnudeginum þá ókum við Uxahryggina með börnin.  Ég náði nokkuð vel að halda mig frá vinnu og öðru gáfulegu og slakaði bara á um helgina... Annars er ég komin með tímabundna skrifstofuaðstöðu uppi í Skóla (Ásgarði) á annarri hæð... Það er hrein og klár snilld að vera komin með aðstöðu og geta haldið úti vinnudegi en hafa ekki vinnuna hangandi yfir sér allan daginn...

Fyrir nokkrum dögum tók ég eftir að Kátur haltraði pínulítið.. við nánari eftirgrennslan þá kom í ljós lítið sár á einni táslunni... Ég reyndi að þrífa það og fylgdist með honum en það dugði ekki til og hann var farinn að haltra verulega í gær og hlífa hægri framloppu... Svo við fórum með hann til Gunnars Gauta dýralæknis í Borgarnesi sem gaf honum fúkkalyf og bólgueyðandi og svo fengum við kaffi hjá Eddu og drifum okkur heim... Við vorum ekki fyrr komin heim en við tókum eftir að Kátur var núna að hlífa vinstri framloppu... Og við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hann var bólginn um liðinn.... Við ákváðum að sjá hvort bólgan færi þar sem hann hafði fengið bólgueyðandi en það vildi ekki betur til en svo að nú tillir hann sér í báðar framloppur en stígur ekki í vinstri afturloppu.... Hann hreyfir sig nánast ekkert til að hlífa sér núna... liggur bara fyrir en ef maður gengur framhjá þá rúllar hann sér á bakið og vill fá maganudd... Hann leyfur okkur að þukla á sér loppurnar án þess að æmta svo við vitum bara ekkert hvað er að dýrinu... Ég hringdi aftur í dýralækninn en við ætlum að skoða þetta aftur á morgun.. Sjá hvað gerist.... Kátur er svona eins og krakkarnir sem muna ekki hvort það var hægri eða vinstri fótur sem var haltur....... en hann ruglar líka saman aftur og framloppum...

Ég er núna að fara í bæinn en í kvöld er fyrsti keramiktíminn í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Ég gisti svo hjá Gerði og fer í HÍ (þjóðskjalasafnið) í tíma í fyrramálið... Bruna svo aftur heim til að kíkja á Kát og halda áfram að vinna..

Valdi er að stússast í trjáfellingum og er að fara að koma sér aftur að verki í Mastersverkefninu en vegna veðurs hefur það ekki verið hægt undanfarið..

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Endnote... Hrein og klár snilld...

Jæjja þá er fyrsta vikan af masterskúrsunum búin.... Valdi var í aðferðafræðinni en ég var í aðferðafræðinni plús vísindaheimspekinni...

Aðferðafræðikúrsinn er hrein og klár snilld.... Maður lærir þvílíkt á þessu þó upplýsingarnar séu ekki endilega nýjar allar þá er þetta frábær áminning og upprifjun um vísindaskrif... En besti parturinn hingað til var dagurinn í gær hjá Bjarna Diðrik þar sem hann fór yfir heimildaleit sem var nú eiginlega bara góð upprifjun en svo eftir hádegið þá kenndi hann okkur á heimildaforriðtið Endnote.... Ég fjárfesti í forritinu fyrir nokkru en það er enn í plastinu... Ég vissi að þetta væri etthvað sem ég ætti að kynna mér og kunna fyrir MS ritgerðina.. Og heldur betur.. Þetta forrit er hrein og klár SNILLD... Og þá á eg við fítusinn að halda utan um heimildir og heimildasöfn.. Greinar og slíkt en þarna setur maður upp sitt eigið bókasafn í raun og veru... Með uppflettiorðum og öllu tilheyrandi... SNILLD OG AFTUR SNILLD...

Ég hlakka ekkert smá til byrja núna að setja inn heimildir fyrir mastersritgerðina.... Ég vona að forritið dugi í tvær tölvur svo Valdi geti haft það líka...

Vísindaheimspekin var nú bara nokkuð þokkalega skemmtileg verð ég að viðurkenna... Það hjálpar að hafa lesið heima... Það virkilega hjálpar..... Ég ákvað að fara inní vísindaheimspekina með opnum hug og lesa allt sem á að lesa til að vera með  í tímum og þá yrði þetta bærilegra.... Og það virkar...

Valdi hefur lítið komist í Skorradalinn í vikunni til að mæla vegna veðurs. Nú er hann að keyra Uxahryggina til að sækja börnin. Það er lítið planað um helgina en þetta verður bara næs kósi helgi í afslappelsi og líka talsverðri skrifborðsvinnu hjá mér... En vikan var frekar mikið geðveik út af masterskúrsum og kennslu.... Svo nú er ég alveg úrvinda...  Jæjja best að fara í Bónus áður en helgartraffíkin hefst...

Bestu kveðjur úr Skítaveðri á Hvanneyri


Sænskt skriffinnsku vesen!

Svíarnir sendu mér í dag til baka eyðublað sem ég sendi þeim í nóvember. Þeir báðu mig um að fylla út "Highlightaðan" reit þar sem ég hafði gleymt að skrifa hvenær ég kom til landsins.. Þetta var umsókn um EU-kortet sem er heilsutryggingakort Svíanna sem ég þurfti að hafa þar sem ég var alltaf að þvælast milli landa í skóla.. Ég merkti við í eyðublaðinu að ég yrði innan við ár í landinu.. Það tók þá sum sé 10 og hálfan mánuð bara að skoða eyðublaðið... Hvað ætli tæki raunverulega langan tíma að fá EU kortið í alvöru... Þeir sendu þetta til Íslands... Ég er bara að velta fyrir mér hvort þeir hafi fattað að ég væri FLUTT HEIM.....

En reyndar kæmi sér kannski vel að hafa EU kortið frá Svíþjóð hér núna þar sem Svíarnir hafa ekki sent mér ennþá eyðublað E-104 sem ég sótti um til þeirra í mai.  Það þarf að framvísa því hjá Tryggingastofnun til að komast inn í sjúkratryggingakerfið hérna heima strax en ekki eftir sex mánuði.  Ég hafði góðan fyrirvara á að redda þessu en allt kom fyrir ekki.. Ég varð að fara úr landi án þess með loforð um að þetta yrði sent. Ég er búin að hringja og E-meila en ekkert gerist.... Ég var að spá í í dag að senda þeim tölvupóst og segja að ég væri með bráðsmitandi berkla og væri á leið til Svíþjóðar til læknismeðferðar... En nei nei.. ég er líklega búin að gefast upp.... Bíð bara þessa tvo mánuði sem eftir eru til að komast hér inn í kerfið... Vona bara að ég "flensist" ekki eitthvað á því tímabili....  Valdi er búinn að fá sitt E-104 svo hann er seif....

Ég segi bara enn og einu sinni... Ég vildi að sænska kerfið væri bara eins og það Gambíska... Um leið og maður vissi hvenær maður átti að beita mútum þá svínvirkaði allt saman, tollurinn, löggan, innflytjenda skrifstofan og svo frvs..... "Come back to morrow" var hintið......

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Svokallað skítaveður..

Já hér á Hvanneyri er núna svokallað skítaveður eins og maður segir á góðri íslensku. Rok og rigning... Og mikið af báðu... Gott að vera bara inni við tölvuna...  En þegar maður á hund þá sleppur maður ekki við að fara út úr húsi annað slagið... Og ég er að spá og spekúlera hvernig ég get platað Valda til að fara út með hundinn í kvöld... Hey.. ég fór út með hann í morgun.....

Ég var að setja inn tvö stutt albúm.. Annað heitir Veiði og Fellsmörk en þar eru tvær myndir frá veiðiferð Valda, barnanna og Jónasar og barnanna hans um síðustu helgi í Fossálana. Síðan eru nokktar myndir úr landinu í Fellsmörkinni. Berjamóalbúmið er frá því við fórum í berjamó upp í Skorradal um daginn..

Annars er bara fínt að frétta. Síðasta helgi var yndisleg hjá mér en ég var ein með hundinum í höllinni og undirbjó kennslu.. Tíminn nýttist vel svo ég er hætt við að fara af taugum í bili... Valdi og krakkarnir áttu góða veiðiferð þar sem ég held að um 14 fiskar hafi allt í allt komið á land hjá þeim.. En það sem mér þótti markverðast var að Linda krækti í fisk en hún var eiginlega að missa veiðiáhugann vegna aflaleysis.... Púff.. það slapp fyrir horn... Verst að Sunna fékk ekki fisk... Það gerist bara næst...

Þessa vikuna erum við Valdi í masterskúrsum hér við Lbhí. Valdi tekur aðferðafræðina sem gestanemandi frá SLU og ég tek aðferðafræðina og Vísindaheimspekina... Aðferðafræðin er frábær en Vísindaheimspekin er torf... Ég get ekki feikað upp áhuga á því fagi... Ég held samt að tímarnir reynist mér auðveldari ef  ég les heima reglulega en ég virðist falla í "cóma" í hvert sinn sem ég reyni að lesa efnið... Ég svaf meira að segja í 3 tíma í dag um hábjartan vinnudag... Þegar ég reyndi að lesa eina grein... Ég komst aldrei lengra en "abstractið"...

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Vinna og veiði

Jæjja þá er þessi kennsluvika búin..

Ég veit ekki betur en að kennslan gangi ágætlega... Ég held samt að ég hafi drepið nemendurnar úr leiðindum sl. mánudag með umræðu um kynvöxt og geldvöxt grassprota... Djísus.. ég sá allt í einu að lífið var að fjara út úr augum meira að segja áhugasömustu nemendanna.... svo ég slúttaði aðeins fyrr og kryddaði þetta aðeins meira fyrir næsta tíma en seinni tíminn í gær fór svo bara í "vitleysu" eða þannig.. Ég sauð saman fyrirlestur um áhugaverða frjóvgun orkidea td. og plöntur sem éta prótein og margt fleira áhugavert úr náttúrunni... Ég var að reyna að sannfæra krakkana um að grasafræði og "kynlíf grasa" væri ljómandi spennandi.... Þau allavega hlustuðu og enginn sofnaði sem er góðs viti... 

Framundan er brjáluð vinnuhelgi hjá mér... En ég hef bara enn ekki náð undirhöndinni í kennslunni og ætla að reyna að vinna mig fram í tímann og undirbúa ýmis verkefni sem framundan eru hjá krökkunum. Ég þarf líka að undirbúa masterskúrsana mína en fyrri vikan í í aðferðafræði og heimsspeki er í næstu viku. VINNA, VINNA, VINNA, VINNA.....

Ég fór í ræktina í gær í Borgarnesi til að hitta Írisi Grönfeld þjálfara en hún setti upp prógramm fyrir mig.. Ég veit nú ekki hvaða ´"húmbúkk" ég hef verið að gera í tækjunum en ég var yfir leitt með lóð nr. 2 og gerði 10-15 sinnum hverja æfingu.. Hún lét mig hafa "Byrjendaprógramm" með lóð nr. 6-7 og ég átti að gera æfingarnar 3x15.. DJÍSUS.. Ég hafði eiginlega ekki lengur stjórn á höndunum á mér og hafði áhyggjur af að geta ekki stýrt heim... Og í dag er ég verulega aum í upphandleggjum...

Valdi er að fara núna á eftir í Fossálana með börnin og líka með Jónasi og hans börnum fjórum.. Þetta verður æðisleg ferð hjá þeim og ég er miður mín að komast ekki með.. Við höfum tvisvar farið í fjölskylduferð í Fossálana að veiða með pabba hans Valda en núna eru það bara þeir Jónas og börnin. Fossálarnir eru nokkra km austar en Kirkjubæjarklaustur. Þar veiddi ég um árið 3 fiska á veiðistað 12 á 10 mínútum.. Og einn var 5 punda.... En ég bara verð að ná undirtökin í kennslunni og náminu aftur.... Ég og Kátur verðum því ein heima um helgina sitjandi við tölvuna.... en ég er búin að lofa Káti að labba með hann og kasta bolta...

Bestu kveðjur úr mildu og yndislegu haustveðri á Hvanneyri


Valdi á afmæli í dag....

Hann Valdi er 43ja ára í dag....

Við erum nú ekki neitt að óverdósa á hátíðarhöldum í tilefni dagsins... Ég tók úr frystinum afganginn af fína lambafilenu sem við buðum upp á þegar Sunna varð 18 ára ásamt kartöflugratíninu... Það verður að duga... Enda rándýrt og fínt kjöt sem synd væri ef færi til spillis....  Í afmölisgjöf frá mér fékk Valdi námskeið á vegum Endurmenntunardeildarinnar hér við Lbhí um meðferð Forntraktora.... Já.. ég veit.. rómantíkin alveg að drepa okkur...  En þó skárra en í fyrra þegar ég gaf honum viftu!!!

Í morgun vöknuðum við snemma en ég ætlaði ekki að vera föst í umferð aftur á leið í tímann minn í HÍ... Það tókst og við vorum komin hálf átta (45 mínútum áður en tíminn átti að hefjast)....  Valdi kom með því við þurftum að kaupa á hann alvöru Jakkaföt þar sem hann er að fara í útför föðurbróður síns í næstu viku...

Tíminn í Heimildaleit í skjalasöfnum var mjög spennandi... Eftir fyrirlesturinn þurftum við að gera verkefni niðri í lesstofu Þjóðskjalasafnsins og það var skemmtilegt... Ég hlakka svo til að byrja á mínum verkefnum í þessu fagi en til þess þarf ég að hangsa eitthvað á Héraðsskjalasöfnum hér í nágrenninu sem er frábært en mig vantar bara einn sólarhring í viðbót inn í hvern raunsólarhring þessa dagana því það er svo mikið að gera....

Við Valdi fórum svo í Kringluna til að finna á hann jakkaföt... Við keyptum ágætis klassísk svört/dökk jakkaföt í Dressman.... Þau voru í alvörunni lang flottust þar... Við keyptum líka skyrtu en ákváðum að tékka á bindabirgðunum hér heima sem voru mistök því Valdi á bara prjónuð bindi, bindi með jólasveinum, bindi með hreindýrum, jólabindi, leður lakkrísbindi, hvít ullarbindi og svo mætti lengi telja... Auk þess á hann bindi sem stendur á 2000 á mörgum stöðum í mörgum stærðum.. sum sé aldamótabindi... Djísus.... Hann mun kaupa sér bindi á mánudaginn þegar hann fer í bæinn....  En mikið assgoti.. leit kallinn vel út þegar hann var kominn í allan pakkan... Glæsilegur kall þar á ferð...

Já BEBBA drífðu þig nú endilega í kaffi til mín... ég vinn heima þessa dagana og það er frekar einhæft að hitta ekki vinnufélaga og svo þarf maður að hita kaffið sjálfur sem er BÖMMER.... hehe..

Sigga Júlla já.. Ég ætla í ræktina í Borgarnesi.. Ég splæsti á mig árskorti og ætla að reyna að drífa mig í tækin eða spinning... ég fór í fyrsta sinn í gærmorgun í tækin og það var æði... Ég var nærri ein á svæðinu með tækin og heitu pottana.... Þetta tekur reyndar heljarins tíma að fara í nesið, í salinn, í sundið og aftur heim á Hvanneyri... En ég held það sé hverrar mínútu virði slík ferð...  Ég ætla svo auðvitað að vera dugleg að láta Kát viðra mig hér um nágrennið allavega meðan það er veður og birta til... En við fórum í yndislegan göngutúr niður á Flæðiengjar í gær í mildu og yndislegu veðri... Ég var í ljómandi skapi þar til hundskrattinn hendir sér út í skurð og varð grútskítugur og týndi leikfanginu sínu... Nú á ég illa lyktandi hund.. Ojbarasta.... Ég sem hef lagt mikinn metnað í að greiða honum og halda honum fínum undanfarið...

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðrún og Valdi

Höfundur

Guðrún og Valdi
Guðrún og Valdi

Fyrir framan Álfhólinn á Hvanneyri..

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband