Húsmæðraorlof á Hvanneyri

Helgin er búin að vera alveg frábær. Á laugardagsmorgni þá vaknaði ég mjög snemma og gerði verkefni í frumulíffræði en ég var alveg til tvö að gera það. Síðan fór ég að taka til og undirbúa komu nokkurra vinkvenna sem von var á í "húsmæðraorlof" en þetta voru þær Gerður systir, Hildur systir, Björk vinkona og Þórunn frænka. Ferðin hófst í Ullarselinu en þar sluppu stöllurnar inn rétt á mínútunni fimm. Sem betur fer eru Ullarselskonur mjög svo liðlegar og biðu eftir okkur en stelpunum þótti mjög gaman að sjá Ullarselið.

Eftir að hafa farið heim, úthlutað herbergjum og hent í pizzadeig þá fórum við í Búvélasafnið en það er alltaf jafn skemmtilegt að sýna það, þá fórum við í kirkjuna og ég hélt léttan sögupistill um skólann og skóladrauginn.. Þaðan fórum við í Hvanneyrarfjós þar sem Rjómi fjósaköttur hélt uppi skemmtiatriðum með frekju og yfirgangi svolítið "kinkí" hegðun.... (sjá albúm)

Eldamennskan tók sinn tíma en það var setið og prjónað og svo var áleggið skorið á pizzurnar og ég var DJ og við sötruðum rauðvín með. Pizzurnar voru frábærar en Hildur gerði mjög góða pizzusósu. Eftir stórtiltekt í eldhúsinu sem var á hvolfi eftir pizzagerðina þá var sest inn í stofu á meltuna og við héldum áfram hannyrðum og ég reyndi að spinna en það gekk eitthvað illa hjá mér. Við sötruðum rauðvín og bjór með og þetta var svo kósí... Hildur fór snemma að sofa en Þórunn og Gerður prjónuðu frameftir en ég og Björk ákváðum að kíkja á barinn sem var fljótgert enda nánast enginn þar og ekkert stuð....

Ég var vöknuð um 8.30 og labbaði litla hringinn með Káti og síðan kom ég heim og Hildur og Björk komu aftur með mér litla hringinn og auðvitað Kátur líka en morgunbirtan er svo falleg.. Síðan var "Bröns" sem var hlaðborð af brauðum, hummusi og áleggi... Og bara nokkuð mikið af góðum mat.. 

Ég held það sé óhætt að segja að maður sé enn á meltunni eftir helgina sem var öll hin skemmtilegasta.. Núna er ég að reyna að slaka á en mér ferst það heldur illa.. Luska er í heimsókn og ég fór bara í labbitúr með hana og Kát sem er bara klúður þar sem Kátur togar í mig og ég í Lusku.... Hálf skrautlegt...

Leigjandinn er loksins búinn að staðfesta alveg 100%... Mér er svo létt...  

Bissí vika framundan en viskukýrin er á fimmtudaginn. Valdi kemur á miðvikudaginn sem betur fer...

Nýtt albúm: Húsmæðraorlof..  

Bestu kveðjur frá Hvanneyri

Guðrún Bjarnadóttir  


Hvernig á að greina skrúfur?

Á Hvanneyri hefur verið alveg frábært veður út allan Janúar og það sem af er febrúar... Maður á bara ekki til orð yfir kyrrum og fallegum frostdögum. Núna er reyndar 14 stiga frost og ég hélt ég yrði úti hér milli húsa þegar ég hljóp yfir í Bút en það slapp..

Það hefur verið mjög mikið að gera hjá mér síðustu daga. Vistfræði heimaverkefnin taka sinn tíma því nemendurnir eru hátt í 70 í ár.  Plöntulífeðlisfræðin er farin að róast enda nemendur farnir að skila verkefnum til mín og skilafrestur rennur út næsta miðvikudag en það verður gott að koma því frá.

Ég hef verið mjög upptekin í undirbúningi að Viskukúnni okkar sem verður næstkomandi fimmtudagskvöld 12. febrúar.  Það er að mörgu að hyggja en aðallega hef ég áhyggjur af því að við séum ekki að finna skemmtiatriði.. Fullt af hæfileikaríku fólki í þessum skóla en það er erfitt að ná í skottið á því.. Það hlýtur að koma. Það fór svo að Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, mætir til að veita verðlaunin en það var tvísýnt þar sem hann samþykkti að gera þetta meðan hann var ráðherra en svo var hringt í mig frá ráðuneytinu og staðfest að hann myndi standa við þetta ef við vildum hann enn... Ó já.. hann er líka þingmaður kjörtæmisins svo við erum hæstánægð þótt hann sé orðinn fyrrverandi.  Svo kemur Logi Bergmann að vanda til að stjórna þessu öllu....

Ég er byrjuð í leikfimi uppi á Kleppjárnsreykjum. Við keyrum saman nokkrar og þetta er svona magi, rass og læri tími... Ég fíla mig bara vel þarna enda skemmtilegar kellur með í hópnum.  Ég er hins vegar svolítið aum af harðsperrum þessa dagana...

Varðandi leigjendamálin þá veit ég ekki betur en að ég sé búin að leigja út húsið en það slitnaði símsambandið við leigjandann og hefur ekki náðst síðan....  En ég tel mig 98% vissa að þetta sé fast í hendi.. Hann hlýtur að hafa samband en hann ætlar að taka við húsinu 1. mars.  En ég er búin að láta aðra áhugasama vita að húsið sé leigt svo það er eins gott þetta standi.

Í gær var ég að aðstoða hana Sigríði Dalmannsdóttur grasafræðikennara í verklegum tíma í grasafræði. Það var svo gaman. Þetta er svo skemmtilega fram sett hjá Sigríði. En hún var að kenna krökkunum að skilja greiningarlykla.. Það gerði hún með því að hafa 10 skrúfur og láta krakkana skrifa greiningarlykil fyrir skrúfurnar og greina svo skrúfur eftir lykli frá öðrum. Þetta var svo gaman og sniðugt og ég held að nemendurnir hafi alveg náð tilganginum og bara skemmt sér ágætlega. Síðan var alltaf hálfur hópurinn að skera tómata og epli og kryfja túlípana... Hrein snilld..

Af Valda er lítið að frétta nema Excel, Excel, Excel... eins og áður en þetta gengur bara vel hjá honum þarna úti en hann er orðinn spenntur að koma heim og ég verð að segja að þetta er orðið alveg ágætt af einverunni hjá okkur Káti og við bíðum spennt eftir að fá kallinn heim.

Ég þarf að vera dugleg í dag að ganga frá ýmsu, td, nýtt vistfræðiverkefni og skila af mér verkefni í frumulíffræði. Ég þarf líka að taka til en um helgina kom Gerður, Hildur, Þórunn og Björk í húsmæðraorlof sem aðallega felst í því að: Slúðra mikið, gera mikla handavinnu, borða mikið og drekka góðan skammt af rauðvíni... Við ætlum líka í Landbúnaðarsafnið, Ullarselið, kirkjuna og kannski í sund upp í Brún. Ef veður leyfir þá verður kveikt í kamínunni.. Ég hlakka mikið til.

Bestu kv


Gvuð... ég hef ekki séð þig í hvað? 100 ár...

Þessi dagur var langur og strangur en mjög svo skemmtilegur. Hann hófst á yfirferð á vistfræðiverkefnum hjá Háskóladeildinni. Svo var ég að undirbúa eða fínisera fyrirlestur um mastersritgerðina mína sem ég hélt á Málstofu síðdegis.. Ég einhvern veginn komst ekki alveg á skrið og var ekki alveg nógu ánægð með mig en ég hélt þetta væri orðið svo flott hjá mér..

Síðan brunaði ég í bæinn en pabbi varð sjötugur í dag og það var haldin stórveisla í Golfskálanum í Grafarholti. Það tók mig 50 mínútur að finna bév.... Golfskálann. En veislan var skemmtileg, góðar snittur og mjög gaman að hitta vini og vandamenn sem ég hafði ekki séð lengi... Setningin " Gvuð.. ég hef ekki séð þig í hvað... 100 ár" var alveg föst á vörum mér... En þetta var næs.. ( ég ætlaði að setja inn albúm en af einhverjum ástæðum voru allir mjög óheppilegir á myndunum eða með lokuð augun eða "out of focus" svo af tillitsemi við gesti veislunnar þá sleppti ég albúminu).

Þaðan brunaði ég upp í hús í Dalnum bara svona til að tékka á því en það er orðið svo hrikalega flott að það hálfa væri nóg.. Bíður bara eftir nýjum leigjendum.. Það er enn margt í deiglunni svo ég útiloka ekkert enn... Ég er bara staðráðin í að fá rétta leigjendur í þetta sinn..

Síðustu dagar hafa líka verið strembnir í vinnu og allskonar verkum. Ég mætti á fund hjá Leikfélagi Ungmennafélagsins en ég á víst að vera eitthvað meðvirk í því að setja upp Línu langsokk en Valdi á að leika Glúm eða Glám.. ég man það ekki... Þetta lítur vel út og verður örugglega skemmtilegt.. Ég missti af prjónakvöldi Ullarselsins en ég skal mæta næst...

Það er lítið af Valda að frétta nema Excel, Excel, Excel..... Ég er nú farin að sakna hans ansi mikið. En samt höfum við Kátur það fínt hér, við löbbum reglulega niður á engjar en veðrið á Hvanneyri í janúar hefur verið alveg magnað og dagurinn í dag var alveg sérlega fallegur.

Rifbeinið sem hrökk til hjá mér í síðustu viku virðist hafa hrokkið á réttan stað því það hefur batnað mikið ástandið á mér. Ég datt reyndar á hnéð niður á engjum á svelli en ég fann ekkert til í rifbeininu og hnéð er bara blátt og marið en ekkert að því að öðru leyti.. Ég vildi óska að þessi hálka færi..

Nú stefnir í góða helgi hjá mér með tölvuvinnu en ég ætla að reyna að semja ritgerðina mína í Frumulíffræði um sjálfstýrðan frumudauða.. Spennó.. Og fara yfir 70 vistfræðiverkefni og vinna fyrir Áskel..  Svo ætla ég annað hvort að draga upp keramikhljólið eða fara að spinna ull á rokkinn... Og jafnvel að glápa svolítið á imbann og prjóna en ég hef varla farið niður í stofu síðan um jólin...

Bestu kveðjur úr jólasnjónum á Hvanneyri


Vorveður og engjarölt..

Jæjja ég og Kátur höfum það fínt hér á Hólnum en við heyrum í Valda annað slagið á Skypinu. Það gengur bara vel hjá honum úti en hann er að klepera á Excel vinnu daginn út og daginn inn. Hann hitti nokkra gamla félaga úr Euroforester náminu um daginn og fór í mat til þeirra.

Ég er enn að vesenast í að sýna húsið í dalnum og reyna að finna hina fullkomnu leigjendur í húsið. Nokkrir hafa sýnt mikinn áhuga en ég hef hrist nokkra af mér því ég bara vil ekki ákveðna tegund af fólki... ég er held ég loksins að læra að "lesa" þessa leigjendur enda hef ég verið svikin svo oft í svona málum....  Enn er eitthvað í degilunni og vonandi fer þetta að ganga...

Í gær fórum við Kátur í bæinn til að syna tveimur aðilum húsið. Ég var búin að segja skýrt við þá báða að það þyrfti að láta vita ef þeir ætluðu ekki að koma því ég væri að fara sérferð úr Borgarfirði.. Annar sendi sms 10 mín í 12 (þegar hann átti að mæta) og sagði Kem ekki... Hinn kom bara alls ekki.... Ég skil ekki hvað fólk er að pæla með svona hegðun.. Er of mikils til ætlast að fólk afboði sig með smá fyrirvara.. Ég hefði þvílíkt getað nýtt daginn í annað en að hanga í tómu húsi og lesa fréttablaðið...

Síðdegis fór ég í fertugs afmælið hennar Bibbu vinkonu en þá kom í ljós að hún hafði gifst honum Ivica sínum fyrr um daginn.. Þetta var glæsileg veisla og frábært að hafa náð að líta við þó stutt væri. Síðan fór ég á Flókagötuna þar sem við gömlu vinkonurnar úr Fossvoginum vorum að hittast og borða saman.. það var mjög gaman og ég var mjög montin af honum Káti sem var svo rólegur og góður og heillaði alla upp úr skónum með sæta "lost" svipnum sínum sem ég held hann sé búinn að fatta að svínvirkar á svona kvensur...

Ég keyrði svo heim um miðnætti og hef eytt deginum í dag í að fara yfir vistfræðiverkefni en nemendurnir eru 70  í ár svo þetta tekur gríðarlegan tíma.. Við Kátur fórum hins vegar tvisvar niður á engjar í dag enda yndislegt veður...

Bestu kveðjur af Hólnum


Kerlingin ein í höllinni á hólnum með hirðhundinum

Jæjja þá er Valdi farinn til Svíþjóðar. Það er ferlega skrýtið að vera hér ein með Káti. Í gærkvöldi var ég mest að rangla um húsið og taka til, gleymdi að pæla í mat og allt í rugli.  Valdi fór út alveg örþreyttur eftir að hafa unnið í húsinu á sunnudaginn og börnin voru hér um helgina en við keyrðum þau suður á sunnudaginn og svo átti Valdi eftir að pakka en það tók smá tíma.. Ég held hann hafi sofið í 2 tíma þegar hann lagði af stað út á völl um fjögur um morguninn... En það hafðist hann er kominn til Alnarp og farinn að vinna í ritgerðinni sinni. Loksins frí frá mér og húsinu. Þarna verður hann í 3 vikur.

Ég og Kátur höfum það fínt tvö saman. Hann fær morgun og kvöldgöngur sem er litli hringurinn hér á Hvanneyri og síðdegið á svo að vera stóri hringurinn eða niður á engjar en á engjunum þá getur Kátur hlaupið um frjáls. Í dag svindlaði ég reyndar á síðdegisgöngunni því við vorum í Mosfellsdalnum í dag. Við auglýstum húsið í sunnnudagsmogganum. Það var rólegt á sunnudaginn en í gær hringdu mjög margir. Ég er alveg orðin rugluð í ríminu en niðurstaðan er að við erum í raun ekki með neitt fast í hendi varðandi leigjendur en þó er ég búin að sýna svolítið. Tveir mættu ekki í dag og einn hafði klukkan 10 farið fram á að hitta mig 12 en ekki tvö.  Ég breyti mínum plönum og fékk ekkert að borða og rauk í dalinn og gaurinn lætur ekki sjá sig... Ótrúleg frekja..  Þeir sem vilja leigja eru einhverjir sem ég vil ekki og hinir sem ég vil fá hafa ekki haft samband aftur. Margir hringja og vilja kaupa en óformlegu tilboðin hafa hljóða upp á 5 -20 milljóinr... Sorry.. ekki að ræða það... Ég er reyndar að bíða eftir svari frá nokkrum leigjendum og enn von um einhverja sem mér leist vel á en ég ætla samt að henda inn auglýsingu í Fréttablaðið á fimmtudaginn og sjá hvernig fer. Við erum búin að eyða svo miklum peningum og tíma í að gera þetta hús upp og það hefur aldrei verið flottara. Við erum bara að auglýsa á alveg skelfilegum tíma.. En þetta kemur.. Dalurinn er alltaf vinsæll og húsið svo flott núna.  (Sjá  nýtt albýum sem heitir Bókfell).

Bestu kveðjur af Hólnum 


Glæsilega húsið í Mosfellsdalnum er tilbúið..

Jæjja auðvitað byrjaði nýja árið á fullu hvort sem maður var tilbúinn eða ekki. Valdi hefur verið á kafi í að gera upp húsið í Dalnum en ég hef verið upptekin við að starta heimaverkefnunum í vistfræðinni og verklegu plöntulífeðlisfræðikennslunni sem ég sé um. Nú er smá "breik" hjá mér fram í síðari hluta næstu viku. Ég hef líka verið með Valda í húsinu þegar ég hef getað en nú er húsið bara svo gott sem tilbúið og alveg ofboðslega glæsilegt. Valdi slípaði gólfið í stofunni og lakkaði þrjár umferðir og ég ætla ekki að lýsa því hvað það er fallegt. Við keyptum svona "ömmustangir" yfir gluggana í stofunni og svo fengum við mjög smekklega lista í kringum gólfborðin. Baðherbergið er tilbúið og eldhúsið líka.. Það sem er eftir er bara pjattvinna og kannski að slípa og lakka svefnherbergisgólfið ef við nennum en það er ekkert möst.   Á morgun kemur auglýsing í sunnudagsmogganum og ég er mjög spennt að fá viðbrögð og hlakka til að sýna það því það er svo fínt. Við munum svo setja inn myndir af fína húsinu í næstu viku þegar það er orðið perfect.

Rifbeinið er enn að angra mig en það er erfitt að hlæja, anda og fara inn og út úr bílum. Ég get hins vegar verið á fjórum fótum og skúrað og skrúbbað án þess að blikna. Sumt get ég og sumt ekki.

Ég byrjaði sl. mánudag í frumulíffræði með Bs búvísindanemunum. Ég held ég standi við það að taka þann kúrs en mér líst vel á hann. Ég straujaði kortið í Bóksölu stúdenta fyrir 12.000 kr fyrir bók sem heitir The Cell og er stór og ógnvænleg upp á 1400 bls. Púff...

Í dag er fallegur dagur á Hvanneyri. Valdi sótti börnin í gær og þetta verður bara róleg helgi, steik í kvöld og svo á að kveikja upp í kamínunni og steikja marsmellós. Ég ætla að reyna að prjóna svolítið en ekki hefur gefist tími til þess í dágóðan tíma..

Valdi fer á mánudaginn til Svíþjóðar og verður í 3 vikur með leiðbeinandanum að vinna í mastersritgerðinni sinni. Það verður ágætt fyrir hann að fá vinnufrið fyrir mér og húsinu. Ég hlakka líka til að eiga rólegan tíma ein að prjóna og labba með hundinum en ég held ég sé samt strax farin að sakna hans... Það verður skrýtið að vera ein í stóra húsinu án hans.

Ps. endurvinnslutunnan okkar er mætt á svæðið.. Hrein og klár snilld..

Bestu kveðjur frá Hvanneyri


Óvænta endurvinnslutunnan

Þessi fyrsta vika ársins hefur verið annasöm hjá okkur. Við höfum farið í húsið í dalnum og það gengur ágætlega en við erum farin að sjá fyrir endann á þessu í næstu viku vonandi.

Valdi hefur verið að kilppa tré í Borgarnesi fyrir kunningja okkar og fer svo að skoða trjáreit í Lundareykjadal sem þarf að klippa.. við verðum víst ekki rík á því þar sem þetta er bara skiptidíll eða vínargreiði en Valda finnst alltaf gaman að komast út og vinna en tölvuviðvera á ekki mikið við hann..

Ég var á kafi í að undirbúa munnleg próf fyrir fjarnema sem skiluðu plöntusafni sl. haust. Þetta eru nemendurnir hennar Stefaníu svo ég þekkti þá ekki en þetta gekk alveg vonum framar held ég. Árni Bragason var prófdómari hjá mér og það var bara gaman hjá okkur. Við urðum reyndar strax svolítið á eftir áætlun og það bara versnaði eftir því sem á leið daginn en ég þurfti í miðjum klíðum að skjótast upp á aðra hæð og halda fyrirlestur um plöntusafnið fyrir hópinn sem kemur í sumar á plöntugreiningarnámskeið... Það var svolítið hratt talað og líklega þruglað svolítið út og suður... Og svo var haldið áfram með munnlegu... Það gekk ljómandi hjá öllum og ég var bara alveg búin á því eftir daginn.. En þetta var mjög gaman..

Í morgun voru sjúkra og upptökupróf og tveir nemar frá mér voru þar... Mér finnst svolítið kósí að sitja yfir prófum, maður prjónar og prjónar og prjónar á launum og svarar nokkrum spurningum.. bara næs... Og fylgir kannski einum á klóstið... Því miður voru krakkarnir mínir búnir snemma í sínum prófum (svona fjandi klárir krakkar) svo ég var laus frekar snemma svo minna gekk með prjónið en ég ætlaði mér..

Í næstu viku byrjar svo vistfræðin í háskóladeildinni en ég á að sjá um heimaverkefnin þar að vanda og hlakka mikið til, nokkrir nýjir kennarar og hátt í 70 nemendur held ég.. Ég var líka beðin um að taka að mér verklega hlutann í plöntulífeðlisfræðinni en það er aðallega bara smásjárvinna og greining á plöntulíffærum eða hlutum... Og svo teikningar út frá því...   Ég álpaðist til að skrá mig í frumulíffræði í háskóladeildinni með Búvísindabraut I sem er á mánudagsmorgnum... Ég bara get ekki ekki verið í skóla... Eða haft það bara rólegt og náðugt... Ég er alveg vonlaus með þetta.. En æi.. það er gaman að komast út meðal fólks sérstaklega þegar maður vinnur heima...

Valdi er búinn að panta flug til Svíþjóðar en þar verður hann að vinna í Masters ritgerðinni sinni í þrjár vikur... Það verður gott fyrir hann að hitta leiðbeinandann og fá smá frið frá mér.. En eins og er er ég ekki með vinnuaðstöðu uppi í skóla og vinn heima við hliðina á Valda og það er spurning hvað hjónabandið þoli það lengi... Tounge

Í gær kom þessi snilldar Endurvinnslutunna upp að húsinu alveg óvænt... Ég hélt að þarna væri komin tunnan sem ég reyndi að panta í haust en gekk ekki upp... Ég fagnaði mikið enda mikil flokkunarmanneskja sem er svolítið maus hér á Hvanneyri að keyra allt í Borgarnesið.. En eftir að hafa fagnað tunnunni á feisbúkkinu þá taldi nú Björg nágranni sig eiga tunnuna en hún hafði pantað slíka í síðustu viku... Þá var þetta allt annað fyrirtæki en ég talaði við... Ég verð víst að skila tunnunni en ég er búin að panta aðra... Ég held við séum alveg til fyrirmyndar á hólnum því Björg í Svíra hér við hliðina verður með fyrstu tunnuna og ég númer tvö...

Þessa stundina er ég BRJÁLUÐ út í Lín en þeir áttu að borga mér námslán í dag ca 200 þúsund kall en nei.. einhverjar reglur, bla bla bla... engin námslán.. Andsk, helv.... úpps sorry orðalagið... Maður á stundum ekki alveg orð yfir þessu veseni í Lín... Þetta er bara lán...

En ég ætla bara að halda áfram að brosa og vera sæt... Krakkarnir eru að koma á eftir og það verður lasagnja í kvöld og kósí helgi...

Bestu kveðjur af Hólnum


Áramótakveðjur frá Álfhólsbúum..

Jæjja þá er árið 2008 liðið... Þvílíkt ár... Gvatemala, Pólland, Svíþjóð, Noregur, Danmörk, Færeyjar, Lettland og Litháen og loksins Ísland... Það er óhætt að segja að árið hafi verið fræðandi og fjölbreytt hjá okkur báðum og vonandi verður næsta ár það líka þó ferðalögin verði væntanlega færri... 

Jólin hafa verið svolítið bissí hér á Álfhólnum en það ótrúlega gerðist að jólin gengu í garð þótt engar sörur væru bakaðar og ekki var tekin stórtiltekt í geymslum og skápum.... Og það skipti bara engu máli... Börnin voru hér öll jólin og fram á gamlárs og það var gaman.. Mikið spilað og borðað. Á Þorláksmessu þá fórum við í skötuveislu til Bebbu og Sigtryggs hér á Hvanneyri en Valdi var heima út af ofnæminu sínu. Á aðfangadag komu hér tveir jólasveinar og færðu Lindu pakka (sjá albúm) og Kátur var skíthræddur við þá..

Við fórum svo í tvö jólaboð í bæinn, á jóladag til pabba hans Valda og annan í jólum til bróður pabba... Báðar veislurnar yndislegar og kalkúnn í þeim báðum. Milli jóla og nýárs voru svo bara rólegheit en reyndar áttum við Valdi eftir að klára eitt verkefni fyrir aðferðafræðikúrsinn og lágum við í heilan dag yfir því. Ég er komin með einkunn úr Skjalakúrsinum í HÍ en ég var með aðra hæstu einkunn 8,5 en hæsta einkunn var 9... Skil ekki hvernig það gerðist en ég er himinlifandi með það... Ég lá svolítið í stærðfræðinni með Jakobi en ég held hann sé verðandi stærðfræðisnillingur og hann þarf ekki að kvíða komandi stærðfræðiáfanga ef hann nær að sýna sitt besta... Ég prjónaði svolítið um jólin en ég gaf Lindu og Sunnu peysur sem ég hafði prjónað.. Peysan á Sunnu smellpassaði en peysan á Lindu var allt of lítil svo ég dreif í að prjóna aðra en náði því ekki fyrir áramót... Hún fær hana bara næst.

Áramótin voru róleg en við vorum bara tvö ein hér á hólnum. Það var yndislegt klukkan tólf að fara út á hólinn og horfa yfir þorpið og Borgarnesið, við sáum líka bjarmann frá annað hvort Akranesi eða Reykjavík á himninum fyrir ofan Hafnarfjallið. Við skutum upp nokkrum rakettum og einn tertu sem hét Guðrún Ósvífursdóttir... Valda fannst voðalega fyndið að bomba Guðrúnu.... og fékk aldrei nóg af þeim brandara... Seinna um kvöldið var svo farið Í íþrottahúsið á fjölskylduskemmtun sem var heldur rólegri en vanalega.. Og vantaði alveg limbókeppnina og DJ Hauk Júl....

Við Valdi tókum bara rólegan dag í dag og sváfum út og fórum í sund, við átum enn og einu sinni hangikét í kvöldmatinn en Daði Lange vinur okkar úr Mývatnssveit kíkti við í kvöldmatinn á leið sinni í Dalina..  Um helgina ætlum við í Bókfellið en við verðum að fara að klára það og leigja út áður en við förum á hausinn..

Bestu kveðjur frá Hvanneyri 


Jólakveðja frá Álfhólsbúum

Við óskum öllum gleðilegra jóla með þessari fínu mynd af Álfhólnum sem hann Sigurjón Einarsson Hvanneyringur tók af húsinu í jólaskrúða... takið eftir fínu snjókarlafjölskyldunni..

Álfhóll jólaljós


Jólaundirbúningur

Við höfum verið á fullu í jólaundirbúningi undanfarna daga. Auk þess hef ég verið að klára vinnuna.

Það gekk brösuglega að koma jólaljósunum á Álfhólinn en eftir margar ferðir upp á þak og mörg þúsundir króna þá eru seríurnar á þakinu loksins í lagi (sjáum svo hvað rokið í nótt gerir..).

Við fórum í bæinn í dag til að klára jólastúss og það gekk bara hratt og vel fyrir sig og við vorum komin til baka á tiltölulega góðum tíma síðdegis og geðheilsan bara í fínu lagi.  Krakkarnir komu á föstudaginn og verða hjá okkur yfir jólin og hugsanlega yfir áramótin.  Í kvöld sitja þau og spila við Valda en ég ætla að klára að prjóna.

Í Borgarfirðinum hefur verið yndislegt jólaveður alla síðustu viku og krakkarnir og Valdi gerðu snjókarlafjölskyldu um daginn hér í garðinum.  (sjá albúm) En í dag bráðnaði fjölskyldan. Núna er rok og rigning.

Sl. laugardag komu Sigurjón Einarsson og Þórunn Harðar í morgunkaffi en Sigurjón var svo almennilegur að taka myndir af Álfhólnum með jólaljósin í ljósaskiptunum. Ég mun setja þá mynd inn við fyrsta tækifæri.

PS. í síðustu viku kom kvittun í gestabókina frá Birgi Össurarsyni í Stokkhólmi sem rakst á bloggið fyrir tilviljun en hann segir frá því að hann hafi verið hér á Hvanneyri í bændadeildinn og unnið á búinu hjá Karli Bjarnasyni.. Það vill nú svo til að Karl Bjarnason bjó hér á Álfhólnum í ein 10 ár en ég heimsótti Karl á Sauðárkrók í sútunina hans fyrir nokkru..... Já þetta er lítill heimur....

Bestu kveðjur úr rokinu á Hvanneyri


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðrún og Valdi

Höfundur

Guðrún og Valdi
Guðrún og Valdi

Fyrir framan Álfhólinn á Hvanneyri..

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið
  • Húsið

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 293803

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband